Bílvelta á Steingrímsfjarðarheiði

Frá Aldrei fór ég suður fyrir nokkrum árum.
Frá Aldrei fór ég suður fyrir nokkrum árum.

Tveir sluppu með minniháttar meiðsl þegar bíll þeirra valt og lenti utan vegar á Steingrímsfjarðarheiði í dag. Bílinn var óökufær eftir óhappið. Lögreglan á Ísafirði segir töluvert hafa verið um hraðakstur í dag en margir hafa lagt leið sína vestur á hátíðina Aldrei fór ég suður.

Bílveltan átti sér stað um klukkan 15 í dag, að sögn lögreglu. Svo virðist sem að ökumaður bílsins hafi misst stjórn á honum í krapa á veginum þannig að hann valt og endaði utan vegar. Hann og einn annar voru fluttir til Hólmavíkur til skoðunar. Bíllinn var fjarlægður með dráttarbíl.

Mikið af fólki er á Ísafirði í tengslum við Aldrei fór ég suður. Að sögn lögreglu hefur töluvert verið um hraðakstur í umdæminu í dag. Það sé ekki skynsamlegt, ekki síst vegna þess að enn sé vetrarfæri uppi á heiðum og spáð kólnandi veðri.

Að öðru leyti hefur hátíðin gengið stóráfallalaust fram að þessu enda flestir þangað komnir til þess að skemmta sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert