Hátíðin „heim“ eftir sjö ár í burtu

Frá Aldrei fór ég suður árið 2010
Frá Aldrei fór ég suður árið 2010 Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

„Þetta er allt að smella,“ segir Birna Jónasdóttir, rokkstýra Aldrei fór ég suður, í samtali við mbl.is. „Ég var að búa um rúm hérna á heimavistinni og er núna að fara niður í skemmu. Þetta rúllar alltaf og hefst að lokum. En það er hellingur í gangi og fólk að vinna alls staðar.“

Hátíðin sjálf hefst á morgun, föstudag, en þó er nóg um að vera í bænum að sögn Birnu.

„Okkar tónleikar eru á morgun og á laugardag. En skíðavikan var sett í gær og þá voru tónleikar og verða líka víðs vegar í kvöld. Það er því heilmikið um að vera þó svo Aldrei fór ég suður hefjist ekki fyrr en á morgun.“

Allar vélar uppbókaðar

Hún segir mikinn straum fólks liggja í bæinn.

„Við vorum að fylgjast með teljurunum hjá Vegagerðinni í gær og þá voru um 500 bílar og svo tæplega 300 í fyrradag. Þannig það er hellingur, ef maður gerir ráð fyrir tveimur og hálfri manneskju í hverjum bíl þá er það slatti af fólki sem er kominn nú þegar. Ég hef ekki skoðað það í dag en eflaust er straumur af fólki í bæinn bæði í dag og á morgun.

Svo eru allar vélar uppbókaðar líka, þannig það er bara fullt af fólki á leiðinni í bæinn.“

Ísafjörðurinn fagri umturnast árlega í rokkhöfuðborg landsins um páska.
Ísafjörðurinn fagri umturnast árlega í rokkhöfuðborg landsins um páska. Ljósmynd/Aldrei fór ég suður

Þurrar götur og flott færi

Í ár dreg­ur til tíðinda því Rækju­verk­smiðjan Kampi hef­ur lánað hátíðinni glæ­nýtt geymslu­húsnæði sem stend­ur á eyr­inni, skammt frá Neðsta­kaupstað, og því stutt frá miðbæ Ísa­fjarðar.

„Þegar við byrjuðum upphaflega þá vorum við hérna niðri á höfn. Við erum búin að vera á Grænagarði í sjö ár held ég en nú erum við komin aftur heim,“ segir Birna og bætir við að geymslan henti mun betur undir tónleikahald. „Hún er hentugri í laginu og mikið nær bænum, ekki einhvers staðar lengst í burtu.“

Spurð um veðrið fyrir vestan segir Birna að nú sé komið vor. 

„Ég stend úti núna og það er milt og gott. Þurrar götur og flott færi í fjallinu. Maður getur ekki beðið um það betra í marsmánuði.“

Frekari upplýsingar um hátíðina má nálgast á vefsíðunni paskar.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert