Furðuverur á Ísafirði

Í dag fór fram furðufatadagur á skíðasvæði Ísafjarðar. Fólk á öllum aldri mætti í alls kyns búningum og naut dagsins. „Þetta gekk allt saman mjög vel, var skemmtilegt og líflegt,“ segir Gunnlaugur Grétarsson eða Gulli diskó, öryggisfulltrúi skíðasvæðisins. Hann segir stemninguna góða í bænum en um helgina fer fram hátíðin Aldrei fór ég suður. 

Gunnlaugur segir að um fimmhundruð manns hafi verið á skíðasvæðinu í dag þegar mest var. Hann segir færið hafa verið ágætlega erfitt en fólk hafi ekki látið það á sig fá. „Það er snjór í öllum brekkum en svolítið blautt.“

Hann telur að gestir séu í flest öllum húsum bæjarins. „Allt gistirými er uppfullt og allir með flatsæng á gólfinu í stofunni. Þetta er svolítið svoleiðis stemmari. Það er greinilegt að Ísfirðingum finnst gaman að fá gesti og taka vel á móti þeim.“

Gunnlaugur eða Gulli diskó segir hápunkt dagsins hingað til hafa verið vélmennadansinn sem hann dansaði með íþróttaálfinum fyrr í dag á furðufatadeginum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert