Dagur á Heimkomuhátíð Ísafjarðar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hélt opnunarræðu.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hélt opnunarræðu. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Í dag fór fram Heimkomuhátíð á Ísafirði en hátíðin snýst um að kynna frumkvöðla, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu bæði fyrir heimafólki og gestum. „Þetta eru mörg spennandi og skemmtileg verkefni og spennandi hugmyndir í gangi. Mikil sköpun og fjölbreytileiki,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, skipuleggjandi hátíðarinnar.

mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

„Það er margir sem geta vel hugsað sér að flytja vestur en halda að hér sé ekki nóg að gera.“ Þórdís Sif segir hátíðina lið í því að leyfa fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu að kynna sig og sína starfsemi og vörur. Nafnið Heimkomuhátíðin vísar svo í það að verið er að bjóða alla velkomna, bæði þá sem eru brottfluttir en einnig þá sem langar að flytja til Ísafjarðar.

Hátíðin hlaut hvatningarverðlaun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í fyrra fyrir það að sýna hvaða störf eru í boði á svæðinu og hvað mikið er hægt að gera í atvinnugreinum tengdum sjávarútvegi.

mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Á hátíðinni kynntu um þrjátíu fyrirtæki og stofnanir starfsemi sína. Auk þess héldu tíu fyrirlesarar örfyrirlestra um hugmyndir sínar og vinnu. Að hátíðinni standa Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur og Bolungarvíkurkaupstaður enda mynda sveitarfélögin saman eitt atvinnusvæði. Hátíðin var haldin í Þróunarsetri Vestfjarða og stóð yfir frá 16:00 – 17:30 í dag. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, var heiðursgestur á hátíðinni og hélt opnunarræðu. Dagur bjó á Ísafirði árið 2001 og starfaði þar sem læknir ásamt eiginkonu sinni.

mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Jón Páll Hreinsson hjá Atvinnuþróunarfélaginu kom að skipulagningu hátíðarinnar ásamt Þórdísi Sif. Hún segir að ákveðið hafi verið að halda hátíðina um páskana þar sem að mikið er um að vera í bænum og mikill gestagangur. „Það er búinn að vera mikill straumur af fólki í dag, kannski um þrjúhundruð manns,“ segir Þórdís Sif.

Það var margt um manninn.
Það var margt um manninn. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson
Fyrirtæki og stofnanir kynntu starfsemi sína.
Fyrirtæki og stofnanir kynntu starfsemi sína. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert