Sælla er að gefa en þiggja

Þorvaldur og Víkingur
Þorvaldur og Víkingur mbl.is/Styrmir Kári

„Hann er sjö ára gamall og það var ofboðslega gaman að heyra þetta koma frá honum. Þetta var algjörlega á hans forsendum og hans ákvörðun,“ segir Þorvaldur Birgir Arnarsson, en sonur hans Víkingur ákvað að gefa hjólið sitt í facebookhópnum Allt gefins. Hjartnæm skilaboð hans hittu í mark í hópnum og um 1.100 manns lækuðu færsluna og fjöldi fólks tjáði sig um góðsemi hans. „Við erum nú bara venjulegt fjölskyldufólk og slefum í fimm til sex læk nema eitthvað verulega bitastætt birtist. En þetta voru alveg ótrúleg viðbrögð,“ segir Þorvaldur og hlær.

Víkingur fékk nýtt hjól í vikunni og ákvað sjálfur að í stað þess að selja gamla hjólið sitt vildi hann gefa það einhverju barni sem ætti ekki hjól. Gamla hjólið var 20 tommu hjól sem passar fyrir fimm til átta ára krakka. Hjólið var í ágætisstandi, ekki fullkomið en virkaði vel og hafði fimm gíra.

Varð orðlaus

„Við vorum á leiðinni heim með hjólið hans í skottinu og hann spurði mig hvað myndi verða um gamla hjólið. Ég spurði til baka hvað hann vildi gera við það því það er í fínu lagi. Hann hugsaði sig um í smástund, tvær eða þrjár mínútur, og þegar við vorum að leggja í stæði við Bónus sagði hann: Það eru börn sem eiga engin hjól, við skulum gefa einhverju barni sem á ekkert hjól gamla hjólið mitt! Ég varð orðlaus en gríðarlega stoltur, eins og ég er af öllum mínum börnum,“ segir hann en alls á hann fjóra stráka og því oft mikið fjör á heimilinu. Feðgarnir allir eru grjótharðir stuðningsmenn Manchester United.

Einstæð kona fékk hjólið

Þónokkrir sóttu um að fá hjólið og gátu þeir feðgar valið úr umsækjendum. Þeim leist best á konu sem sendi Þorvaldi skilaboð og tóku hjólið frá fyrir hana og syni hennar. „Það var erlend einstæð kona sem sendi mér skilaboð. Hún á fjóra stráka og enginn þeirra á hjól. Hún er að vinna til sex á daginn og við tókum það frá fyrir hana.“ Víkingur vildi ekki láta hjólið frá sér nema með hjálmi og þegar heim var komið fór hann út í bílskúr og sótti gamla hjálminn sinn. „Þannig að hjól og hjálmur gátu glatt,“ segir Þorvaldur stoltur.

Ónotuð hjól í notkun á ný

Hjólasöfnun Barnaheilla var formlega hleypt af stokkunum á miðvikudag í Sorpu við Sævarhöfða.

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri voru þau fyrstu sem gáfu hjól til söfnunarinnar og hvöttu þannig aðra til að koma ónotuðum hjólum í notkun á ný. Hjólin sem safnast verða gefin börnum og unglingum sem ekki eiga kost á að kaupa sér reiðhjól enda kostar nýtt hjól út úr búð frá 25 þúsund krónum og upp úr.

Þeir sem þurfa á nýjum gömlum hjólum að halda eru hvattir til að sækja um hjól hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Söfnunin stendur til 30. apríl.

mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert