Skíðasvæðin almennt opin í dag

Úr Bláfjöllum.
Úr Bláfjöllum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ágætis veður er á landinu í dag og skíðasvæði landsins flest opin. Mikil aðsókn hefur verið í Hlíðarfjalli og taldir voru 2.552 gestir í brekkunum sem er sjötta mesta aðsóknin á einum degi síðan mælingar hófust, segir á Facebook síðu Hlíðarfjalls.

Lyftur Hlíðarfjalls opnuðu kl. 9 venju samkvæmt og verða opnar til kl. 4 í dag. Minniháttar snjókoma, 3m/s og -2°c frost er á svæðinu. Færi er sagt gott eftir snjókomu næturinnar.

Skíðasvæðin í Bláfjöllum og Skálafelli verða opin milli kl. 11 og 17 í dag. Í Skálafelli er norðaustan 8-12 m/s og frost -3°c og í Bláfjöllum 8m/s. Von er á nokkrum blæstri í dag og gestir beðnir um að dúða sig í samræmi við það.

Á skíðasvæði Ísafjarðar í Seljalands- og Tungudal verður opið frá 10-17. Í Seljalandsdal verður dagskrá í dag og m.a. haldið páskaeggjamót. Skafrenningur hefur verið á svæðinu og aðeins verða tvær lyftur opnar í Tungudal í bili.

Skíðasvæði Dalvíkur er opið til kl. 16. Páskaeggjaratleikur verður í boði þar í dag og upplagt fyrir ratvísa að koma snemma til þess að tryggja sér egg. Auk þess verður opin leikjabraut fyrir börn og brettagarður.

Á skíðasvæði Tindastóls verður opið frá 11-16. Snjókoma, norðaustan 6 m/s og -4°c frost var þar í morgun.

Skíðasvæði Siglufjarðar verður opið frá 10-16. Svipað veður og annars staðar á landinu en nokkur éljagangur og skyggni takmarkað, sérstaklega við topp þar sem lyftur verða settar í gang þegar veður leyfir.  Göngubraut um Hólssvæði verður opnuð kl. 12.

Í Stafdal verður skíðasvæðið opið milli 10 og 16. Hæglætis veður og nýr snjór í brekkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert