Versnandi veður um norðanvert land

Spáð er snjókomu í kvöld og í nótt en él …
Spáð er snjókomu í kvöld og í nótt en él á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veður fer versnandi í kvöld um landið norðanvert. Bæta á í vind en spáð er á milli 10-18 metrum á sekúndu. Samkvæmt Helgu Ívarsdóttur, vakthafandi veðurfræðing á Veðurstofu Íslands, verður hvassast norðan til í kvöld en austan til á morgun, á Suðausturlandi undir Vatnajökli. „Veður verður vetrarlegt með snjókomu í kvöld og í nótt sem breytist svo í él á morgun, norðan- og austanlands.“ Búast má við því að blint verði á heiðum.

Sunnan og vestanlands mun veðrið haldast svipað og verið hefur undanfarna daga. „Það gæti orðið aðeins bjarta yfir borginni á morgun en var í dag. Ágætis veður en samt svolítið gluggaveður.“

Á mánudag og þriðjudag verður svo búið að draga úr vindu og ofankomu á Norður- og Austurlandi en áfram verður kalt í veðri. Það fer að kólna með vikunni og um miðja viku má búast við frosti um allt land. Í lok vikunnar má þó búast við vaxandi suðaustan átt og hlýindum. „Mars er vetrarmánuður þannig að það er enn vetrarveður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert