105 kepptu í fitness um páskana

105 keppendur stigu á svið á Íslandsmótinu í fitness sem fór fram í Háskólabíói um páskana. Á skírdag var keppt í karlaflokkum og á föstudaginn langa í kvennaflokkum en alls var keppt í sex keppnisgreinum.

Að lokinni keppni í hverjum flokki var keppt um heildarsigurvegara hverrar keppnisgreinar, að því er kom fram á Fitness.is.

Ingi Sveinn Birgisson sigraði unglingaflokkinn og varð jafnframt heildarsigurvegari í fitness karla og Una Margrét Heimisdóttir sigraði heildarkeppnina í fitnessflokkum kvenna.

Karlar fleiri en konur 

„Þetta gekk ljómandi vel. Við vorum með 105 keppendur sem er fínasta þátttaka,“ segir Einar Guðmann, skipuleggjandi, spurður út í mótið.

„Við höfum verið að sjá fjölgun, sérstaklega í karlaflokkunum og þetta er í fyrsta skipti í nokkuð mörg ár sem karlar eru fleiri en konur á Íslandsmótinu. Það er bara hið besta mál,“ bætir hann við og segir að slatti af óvæntum úrslitum hafi verið á mótinu en allir bestu keppendurnir mættu til leiks.

„Fjöldi keppenda þarna stefnir á erlend mót á næstunni. Íslandsmótið er eins konar úrtökumót fyrir erlend mót,“ segir Einar.

Íris Ósk vann í módelfitness

Í ólympíufitness stóð Hrönn Sigurðardóttir uppi sem sigurvegari.  Keppendur í módelfitness voru 27 talsins og þar varð Íris Ósk Ingólfsdóttir hlutskörpust.  Viktor Orri Emilsson bar sigur úr býtum í heildarstigakeppninni í sportfitness karla en keppnin þar var ákaflega jöfn.

Davíð Alexander varð heildarsigurvegari í vaxtarrækt, auk þess sem hann sigraði í opnum flokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert