Frábært færi í Bláfjöllum í dag

Margir nýttu bjart og gott veður dagsins í dag til útivistar. Í Bláfjöllum renndu hátt í 3 þúsund manns, á öllum aldri, sér í brekkunum á skíðum og snjóbrettum en að sögn Einars Bjarnasonar, rekstrarstjóra skíðasvæðisins í Bláfjöllum, hefur dagurinn verið frábær í alla staði.

„Ef eitthvað færi er 100 prósent, þá er dagurinn í dag 120 prósent," segir Einar og hlær. Hann segir að sól hafi skinið frá því klukkan 10 í morgun, engar raðir hafi myndast í lyftunum þó svo að lyfturnar hafi verið þétt setnar af skíðafólki. Lengst hafi röðin náð í kóngnum að hliðunum, svo biðin var ekki nema nokkurra mínútna löng.

„Það er opið til klukkan fimm í dag, þá fara allir beint heim í páskalambið,“ segir Einar. Spurður út í morgundaginn segir hann það koma í ljós í fyrramálið hvernig færið verður, en hugsanlega verði morgundagurinn jafn góður og dagurinn í dag.

Sjá má hvernig stemningin var í brekkunum í dag með því að fletta myndunum hér að ofan en ljósmyndari Morgunblaðsins kannaði aðstæður í Bláfjöllum fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert