Leiðsögumaðurinn fór fram af

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vélsleðamennirnir sem slösuðust við Jarlhettur sunnan við Langjökul í dag voru á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland. Guðfinnur Pálsson, framkvæmdastjóri Mountaineers, segir að málsatvik séu ekki ljós á þessu stigi nema aðeins í grófum dráttum.

„Það eru nokkrir sleðar sem fara fram af hengjunni. Það endar þannig að það er farið með þrjá farþega á spítala,“ segir Guðfinnur.

Frétt mbl.is: Þrír Bretar fluttir á Landspítalann

Strax eftir að slysið varð var kallað eftir þyrlu og tilkynnt um slysið en að sögn Guðfinns var ákveðið að flytja fólkið á spítala með sjúkrabíl. Mountaineers keyrði fólkið á móti sjúkrabílnum og mættust þeir við Gullfoss.

„Einn kennir sér meins á öxl og annar á fæti,“ segir Guðfinnur um áverka fólksins en hann segist ekki þekkja það hversu alvarlegir áverkarnir eru.

Funda með starfsfólki síðar í dag

Guðfinnur segir að nokkrir sleðar hafi farið fram af hengjunni, þar á meðal var leiðsögumaðurinn í ferðinni. Hann segir að fundað verði með starfsfólki Mountaineers um leið og þau koma aftur í bæinn af jöklinum. Segir hann að atvikið verði rannsakað mjög ítarlega og að lögreglu hafi verið tilkynnt um slysið.

„Nú bíð ég eftir því að fá frekari upplýsingar um stöðuna á þeim sem lentu í þessu atviki. Síðan kölllum við saman okkar starfsfólk um leið og þau koma af jöklinum í lok dags,“ segir hann og bætir við að starfsfólk Mountaineers sé vel þjálfað og þar af leiðandi vel búin undir atvik sem þessi. „Við förum vel í gegnum allt svona, en núna er hugurinn hjá þeim sem lentu í þessu og ég vona bara allt það besta fyrir þeirra hönd,“ segir hann.

Þrír vélsleðamenn voru fluttir á Landspítalann í Fossvogi.
Þrír vélsleðamenn voru fluttir á Landspítalann í Fossvogi. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert