Sex sleðar fóru niður í slysinu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Búið er að útskrifa þrjá einstaklinga af spítala sem fluttir voru til aðhlynningar og skoðunar eftir vélsleðaslys við Jarlhettur sunnan við Langjökul í dag. Fjórir voru fluttir á spítala eftir slysið og er því búið að útskrifa alla nema einn. Sá fjórði er á leiðinni í aðgerð en er ekki í lífshættu.

Fólkið var í ferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland, sem sérhæfir sig í vélsleðaferðum á Langjökli og svæðinu í kring. Guðfinnur Pálsson, framkvæmdastjóri Mountaineers, segir að skoða þurfi tildrög slyssins nánar, en við fyrstu athugun virðist sem að sleðunum sé keyrt ofan í laut í jökuljaðrinum sem leiðsögumaðurinn í ferðinni vissi ekki af.

Frétt mbl.is: Leiðsögumaðurinn fór fram af

„Við vitum um svæði þarna sem við forðumst. Þetta er í halla niður og þá geta svona lautir verið mjög hættulegar. Þú sérð einfaldlega flatlendi framundan en ekki svona geil,“ segir Guðfinnur og bætir við að nokkuð vindasamt hafi verið á svæðinu upp á síðkastið og því gæti verið að vindurinn hafi mokað upp þetta geil sem er um fimm metrar á breidd en mishátt.

Hann segir að sex sleðar hafi farið þarna ofan í, en í ferðinni voru á milli 15 og 20 sleðar. „Menn fengu misharða lendingu með þeim afleiðingum sem við þekkjum,“ segir Guðfinnur en bætir við: „Leiðsögumaðurinn nær að stoppa hina.“

Spurður um líðan leiðsögumannsins sem fór fyrstur niður, svarar Guðfinnur því til að hann beri sig vel en hann verður sendur í læknisskoðun. „Hann hafði farið þarna um ekki fyrir löngu síðan og taldi að þetta hafi ekki verið þarna þá. Það hefur verið mjög hvasst síðustu daga og það gæti verið að vindurinn hafi hjálpað eitthvað til,“ segir hann.

Aðstæður voru tiltölulega góðar þegar slysið varð; ágætt veður, fínt skyggni þó það hafi verið hvasst á leiðinni upp jökulinn sem hefur ekki áhrif á sleðatúrinn.

Jarlhettur sunnan við Langjökul.
Jarlhettur sunnan við Langjökul. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert