Ekki flogið til Brussel á morgun

Flugi Icelandair til og frá Brussel hefur verið aflýst á morgun að sögn Guðjóns Arngrímssonar upplýsingafulltrúa Icelandair. Zaventem flugvöllur í Brussel verður lokaður fram á miðvikudag hið minnsta.

Icelandiair hefur því þurft að aflýsa átta flugferðum til og frá flugvellinum í Brussel frá því sjálfsvígsárásir voru gerðar þar 22. mars sl. Flugfélagið flýgur þrjá daga í viku til Brussel, þriðjudaga, fimmtudaga og sunnudaga.

Ríkissaksóknari í Belgíu hefur birt nýtt myndskeið úr öryggismyndavélum á Zaventem flugvellinum af manninum með hattinn. Það er ljósklædda mannsins sem sést á myndskeiðinu með tveimur mönnum, Ibrahim El Bakraoui og Najim Laachraoui, sem frömdu sjálfsvígsárásir á flugvellinum. Talið er að maðurinn með hattinn sé sá sem flúði af flugvellinum en sprengja hans sprakk ekki.

Talsmaður ríkissaksóknaraembættisins segir í viðtali við AFP fréttastofuna að þetta myndskeið hafi ekki áður verið birt og óskað sé eftir upplýsingum um manninn. Enn er unnið samkvæmt þeirri kenningu að þriðji maðurinn sé Faycal Cheffou. Hann var á laugardaginn ákærður fyrir morð í hryðjuverkaárás í tengslum við árásina á flugvellinum, samkvæmt heimildum AFP.

Heimildir AFP innan úr rannsókninni herma að Cheffou hafi ekki viljað veita neina aðstoð við rannsóknina. Tilræðismennirnir í Brussel tengjast árásarmönnunum í París frá því í nóvember nánum böndum og fundust lífsýni úr Laachraoui á nokkrum þeirra sprengja sem voru notaðar þar. Talið er að hann hafi útbúið sprengjurnar þar sem og í Brussel. 

Eins er talið að Khalid El Bakraoui, bróðir Ibrahims sem gerði sjálfsvígsárás á jarðlestarstöðinni, hafi leigt íbúð sem Salah Abdeslam, sem var handtekinn í Brussel 18. mars sl. hélt til í. Hann er grunaður um aðild að hryðjuverkunum í París.

Á vef flugvallarins í Brussel kemur fram að álagspróf verði gerð á vellinum á morgun til þess að kanna hvort þær lagfæringar sem gerðar voru í brottfararsalnum standist kröfur. Ekki hafa verið gefin nákvæm svör um hvenær farþegaflug verður heimilað á nýjan leik um völlinn.

Faycal Cheffou
Faycal Cheffou AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert