Hæfisspurningunni enn ósvarað

Helgi Hrafn Gunnarsson segir hæfisspurningunni enn vera ósvarað.
Helgi Hrafn Gunnarsson segir hæfisspurningunni enn vera ósvarað. mbl.is/Golli

Hæfisspurningunni er enn ósvarað í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, vegna erlends félags í eigu eiginkonu sinnar, að mati Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata.

„Mér finnst alveg vel gert hjá þeim að setja saman svona samantekt og gott hjá þeim að útskýra þetta mikið,“ segir Helgi Hrafn um það þær útskýringar sem forsætisráðherra hefur látið upp í fjölmiðlum nú um helgina.

„Það kemur samt sem áður ekkert nýtt fram þarna og hæfisspurningunni er enn ósvarað. Þetta snýst ekki um skatta. Þetta snýst um að sem forsætisráðherra þá hefur hann t.d. aðgang að upplýsingum.“

Helgi Hrafn segir vandamál í íslenskri pólitík að taka þurfi á málum með þessum hætti og velta fyrir sér hvað kunni að hafa gerst eða verið sagt á bak við tjöldin. „Það eru gífurlegir hagsmunir í húfi. Það er verið að tala um stærsta kosningamál Framsóknarflokksins í kjölfar efnahagshruns á Íslandi þannig að það er líka samhengið við málið sem skiptir máli.“

Tími sé kominn til að menn fari að íhuga hæfi mun alvarlegar gert hefur verið hingað til. „Það hefur alltaf verið lenska hér að nota fámennið sem afsökun. Það er hins vegar ekki ástæða til að láta af kröfum um gagnsæi, heldur þvert á móti er það krafa um að hafa það meira.“

Embætti forsætisráðherra sé þess eðlis núverandi staða sé ekki góð. „Það er óháð Sigmundi Davíð sem persónu og hans störfum. Það snýst um eðli stöðunnar og eðli málaflokksins sem þetta mál varðar.“

Helgi Hrafn segir að Píratar muni halda áfram að ræða mögulega vantrauststillögu. „Þetta er stórt mál og mikilvægt að fara vel yfir það. Við erum búin að vera að tala saman og munum halda því áfram eins og aðrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert