Reykur í farþegarými þyrlunnar

Þyrla Landhelgisgæslunnar nauðlenti í Þykkvabæ.
Þyrla Landhelgisgæslunnar nauðlenti í Þykkvabæ. Morgunblaðið/Óli Már

Aðeins tvær til þrjár mínútur liðu frá því að neyðarkall barst frá TF-LÍF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, þar til hún hafði nauðlent í Þykkvabæ. Reykur kom upp í farþegarými þyrlunnar þegar verið var að flytja sjúkling frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur fyrr í dag.

Að sögn Auðuns F. Friðrikssonar, verkefnastjóra hjá Landhelgisgæslunni, var þyrlan stödd fyrir ofan sjó á milli lands og Vestmannaeyja þegar reykurinn kom upp. Hélt þyrlan beint inn á land og lenti heilu og höldnu við Þykkvabæ. Ekkert amar að áhöfn eða farþega, en sex manns voru um borð í þyrlunni, fimm í áhöfn og einn sjúklingur.

Frétt mbl.is: Þyrlan nauðlenti í Þykkvabæ

Ekki er vitað hver bilunin er eða hversu alvarleg hún er, en Auðunn segir flugmenn þyrlunnar hafa haft fulla stjórn á þyrlunni allan tímann. Það sé hefðbundið verklag að senda út neyðarkall og lenda eins fljótt og auðið er þegar reykur komi upp í farþegarými. Þá var lögregla og björgunarsveitir ræstar út þegar neyðarkallið barst.

Sjúklingurinn fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur

Þyrlan lenti við bæinn Skarð í Þykkvabæ.
Þyrlan lenti við bæinn Skarð í Þykkvabæ. Ljósmynd/Ómar Páll Sigurbjartsson

Flugvirki þyrlunnar er nú að fara yfir þyrluna og reynir hann að finna út hvað hafi orsakað reykinn. Auðunn segist ekki vita hvert framhaldið verður en við fyrstu sýn virðist sem að vandamálið sé minniháttar.

Sjúklingurinn sem var um borð í þyrlunni var fluttur til Reykjavíkur með sjúkrabíl og var líðan hans stöðug, segir Auðunn. Spurður hvort það hafi áhrif á starfsemi Landhelgisgæslunnar að ein þyrla sé úr leik í bili svarar Auðunn því til að svo sé ekki. Tvær þyrlur séu til taks í augnablikinu en önnur þeirra er stödd á Vestfjörðum um þessar mundir vegna vélsleðaslyss sem þar varð fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert