Þyrlan nauðlenti í Þykkvabæ

TF-LÍF við bæinn Skarð í dag.
TF-LÍF við bæinn Skarð í dag. mbl.is/Óli Már Aronsson

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, þurfti að nauðlenda í Þykkvabæ fyrir skömmu eftir að reykur kom upp í henni. Þyrlan var að flytja sjúkling frá Vestmannaeyjum er atvikið átti sér stað. Samkvæmt fyrstu boðum sem send voru út var óttast að vélin þyrfti ef til vill að nauðlenda á sjónum. 

Nauðlendingin tókst vel og engan sakaði. Þyrlan lenti við bæinn Skarð í Þykkvabæ. Ómar Páll Sigurbjartsson, bóndasonur frá Skarði, sagði að áhöfn þyrlunnar hefði borið sig vel en ekkert viljað láta uppi um hvað olli því að hún neyddist til að lenda við bæinn. Sjúkrabíll er búinn að sækja sjúklinginn sem þyrlan var að flytja. 

Þyrlan lenti við bæinn Skarð í Þykkvabæ.
Þyrlan lenti við bæinn Skarð í Þykkvabæ. Ljósmynd/Ómar Páll Sigurbjartsson

Kalla þurfti út þyrlu til að flytja sjúklinginn frá Eyjum þar sem ekki var hægt að senda hann með flugvél. Töluvert hefur snjóað í Eyjum í dag.

Kalla þurfti svo út aðra þyrlu til að sinna útkalli á Vestfjörðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert