Davíð Þór færist nær framboði

Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur, ætlar að tilkynna um hvort hann …
Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur, ætlar að tilkynna um hvort hann bjóði sig fram til embættis forseta Íslands á næstu vikum. Að hans sögn þokast hann nær því að taka þá ákvörðun að láta verða af framboði, frekar en ekki. mbl.is

Davíð Þór Jóns­son, héraðsprest­ur á Aust­ur­landi og fyrr­ver­andi grín­isti, segir líkurnar vera að aukast á því að hann muni bjóða sig fram til embætt­is for­seta Íslands. Ákvörðunina hyggst hann tilkynna á næstu tveimur til þremur vikum. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is.

Davíð Þór hafði að vísu nóg annað að gera um páskana en að íhuga forsetaframboð, enda ansi þétt helgihald fyrir austan, sem og annars staðar á landinu, um páskahelgina, auk þess sem hann er með nýfætt barn á heimilinu.  

„En ég hef verið að hugsa málið og ráðfært mig við fólk. Ég hef fengið mjög mikla hvatningu þannig ég er svo sannarlega ekki hættur við. Ég hef þokast nær því að taka þá ákvörðun að láta verða af því, frekar en ekki. “

Hann segist þó ennþá liggja undir feldinum fræga. „En ég fer að hallast að því að framboð væri raunhæft og ég fengi þann stuðning sem ég þyrfti til að geta átt möguleika á að ná kjöri.“

Davíð Þór er sem stendur í fæðingarorlofi og segist því vilja fara af stað út í eins litla óvissu og mögulegt er. „Ég hef fengið mörg símtöl og mikla hvatningu um að fara fram á þeim forsendum sem ég hef verið að tala um.“

Aðgerðaáætlun gegn hatri

Meðal þess sem Davíð Þór mun leggja áherslu á, fari hann fram, er aðgerðaáætlun gegn hatri. Hann segir jafnframt mikilvægt að frambjóðendur tali fyrir fleiri en einu málefni. „Ég myndi ekki vilja fara fram sem einhver eins máls frambjóðandi, ég hef mjög skýrar skoðanir á stjórnarskrármálinu og sambandi forseta og viðskiptalífs og svo framvegis.“

Davíð Þór segir að viðbrögð við mögulegu framboði sínu hafi langflest verið hvetjandi, en letjandi viðbrögðin séu ekki síður hvetjandi. Viðbrögðin sem ég hef fengið hafa 90% verið hvetjandi og þau sem hafa verið letjandi hafa verið af því tagi að þau hafa frekar stuðlað að því að sannfæra mig um nauðsyn þess að ég fari fram. “

Framboðsfrestur rennur út 21. maí og segir Davíð Þór nægan tíma vera til stefnu, en hann kjósi að ganga frá lausum endum fyrir lok næsta mánaðar. „Þó að það sé frábært að búa hér á Eskifirði þá er maður pínulítið einangraður. Ég á erindi til Reykjavíkur á næstu vikum og þá mun ég kynna ákvörðun mína.“

Aðstoð úr öllum landshlutum

„Ég er ekki byrjaður að safna undirskriftum en ég er kominn með hóp af sjálfboðaliðum sem eru tilbúnir að safna undirskriftum, daginn sem ég tek ákvörðunina. Þannig ég hef ekki áhyggjur að það út af fyrir sig verði mikið vandamál. Fólk úr öllum landshlutum hefur boðið fram aðstoð við framboðið.“

Davíð Þór segir fjölda frambjóðenda vissulega vera óvenjulegan og telur hann að von sé á mörgum í viðbót.  „Ég stórefast þó um að allir sem lýst hafa yfir framboði verði í framboði þegar uppi er staðið.“

Skyldurækni og réttlætiskennd

„Það sem knýr mig áfram er skyldurækni og réttlætiskennd. Ef í ljós kemur að stór hluti þjóðarinnar sé reiðubúinn að láta það sem ég hef verið að tala um verða kosningamál í þessum forsetakosningum, og hugsanlega í næstu Alþingiskosningum, þá rennur mér blóðið til skyldunnar og finnst ég ekki geta skorast undan ef ég fæ það sterklega á tilfinninguna að mér yrði treyst til að vera í forsvari fyrir þessi gildi í þessu embætti,“ segir Davíð Þór að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert