„Það er kominn tími til þess að fara“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn

„Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þú neyðist til þess að standa upp úr stólnum og hefja þrautagöngu sem gæti endað þar sem síst skyldi og það er eins gott að vera vel skæddur til slíkrar ferðar.“ Svo hefst opið bréf Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.

„Nú ef ég hef rangt fyrir mér og þú neyðist ekki til þess að standa upp úr stólnum vegna þess að Alþingi er að einhverju leyti skipað lúðulökum og lufsum, þá er ég viss um að þú munir gera það af fúsum og frjálsum vilja af því að þú ert góður drengur og þér þykir vænt um þína þjóð,“ segir Kári.

Bréfið birtist í Morgunblaðinu í dag en þar segir Kári að röksemdir þessarar fullyrðingar séu í tveimur þáttum.

Annars vegar sé með öllu óásættanlegt að „þjóðin frétti nú að maðurinn sem leiddi ríkisstjórnina sem smíðaði í raun réttri samkomulagið við kröfuhafana sé einn af þeim. Það þýðir ekkert að segja að það sé konan þín en ekki þú sem eigi kröfurnar.“

Segir svo að lögin um innherjaviðskipti setji sömu reglur fyrir maka í öllum tilfellum og allar reglur um hagsmunaárekstra geri ráð fyrir að hagsmunir maka leiði til sömu hagsmunaárekstra og manns eigin.

„Það er ekki bara óásættanlegt að þú skulir hafa tekið þátt í samingunum heldur með öllu óskiljanlegt að þú skulir hafa haldið að það væri í lagi og haldir það enn þann dag í dag. Í því endurspeglast dómgreindar-skortur sem gæti endað í sögubókum.“

Styr hefur staðið um fjárhag þeirra hjóna, Sigmunds Davíðs Gunnlaugssonar …
Styr hefur staðið um fjárhag þeirra hjóna, Sigmunds Davíðs Gunnlaugssonar og Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líklega einhverjir ósammála

Seinni þátt röksemdanna segir Kári felast í einstöku innsæi sem Sigmundur hafi haft inn í mögulegt framtíðarverðmæti krafna í föllnu bankanna. 

Sú staðreynd að þú bjóst að þessum upplýsingum á sama tíma og þú áttir kröfur í bankana og gast notað þær til þess að taka ákvarðanir um að selja eða ekki gerir þig sekan um innherjaviðskipti.  Sú ákvörðun að selja ekki er engu léttvægari í þessu samhengi en sú að selja.

Að lokum segir Kári að líklegt sé að einhverjir verði honum ósammála um það sem hann segir í bréfinu.

„[...] en það er næsta víst að margir koma til með að sjá þetta svipuðum augum og ég. Þar af leiðandi kemurðu til með að hrekjast úr embætti að endingu þótt svo þú berjist gegn því með kjafti og klóm. Því ráðlegg ég þér að sýna auðmýkt og lítillæti og segja af þér til þess að koma í veg fyrir að þjóðin þurfi að eyða þeirri orku í enn eina innri baráttuna sem mætti annars nýta til uppbyggingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert