Taldi félagið skráð í Lúxemborg

Bjarni Benediktsson Fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson Fjármálaráðherra mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist ekki hafa vitað af því að félag sem hann átti þriðjungshlut í hafi verið skráð á Seychelles-eyjum fyrr en honum barst ábending frá erlendum blaðamanni. Í yfirlýsingu á Facebook segist hann hafa staðið í þeirri trú að félagið, Falson & Co., ætti varnaþing í Lúxemborg en misskilningurinn hafi ekki haft áhrif í skattalegu samhengi.

„Í þessu ljósi ber að skoða svör mín í Kastljósi 11. febrúar 2015, þar sem ég sagði aðspurður að ég hefði ekki átt neinar eignir eða viðskipti í skattaskjólum. Þessi svör gaf ég eftir bestu vitund, enda taldi ég mig aldrei hafa átt neitt á aflandssvæði. Ég vil eins og aðrir hafa það sem sannara reynist og þykir þetta miður, en vil jafnframt ítreka að þessi viðskipti mín voru ekki í skattaskjóli, enda gefin upp á Íslandi,“ segir Bjarni í yfirlýsingunni.

Bjarni segir eina tilgang félagsins hafa verið að halda utan um eign í Dubai en að svo hafi farið að hann og viðskiptafélagi hans hafi aldrei tekið við henni. Ákveðið hafi verið að ganga út úr kaupunum árið 2008 og árið 2009 hafi málið verið gert upp með tapi og félagið sett í afskráningarferli.

„Það hafði engar tekjur, skuldaði ekkert, tók aldrei lán, átti engar aðrar eignir, hvorki fyrr né síðar og hafði enga starfsemi. Við gildistöku reglna um hagsmunaskráningu þingmanna átti ég því hvorki hlut í félagi í atvinnurekstri né aðrar fasteignir en húsnæði til eigin nota.“

Bjarni segist hafa tekið þá ákvörðun þegar hann bauð sig fram til embættis formanns Sjálfstæðisflokksins að stunda ekki viðskipti samhliða starfi sínu og að hann hafi ekki átt hlutabréf frá árinu 2009.

Í þessum efnum tel ég rétt að fylgja einfaldri reglu. Það eiga allir að skila sínu til sameiginlegs rekstrar samfélagsins. Langflestir fylgja þessari sjálfsögðu reglu. Ég mun láta einskis ófreistað til að ná til hinna, sem fara á svig við lög og reglur og vilja fá frítt far með samborgurum sínum sem halda uppi lífsgæðunum á Íslandi.“

RÚV greindi frá því fyrr í kvöld að þrír ráðherrar og fleira áhrifa­fólk í ís­lensk­um stjórn­mál­um væri að finna á list­um yfir eig­end­ur fé­laga í skatta­skjól­um er­lend­is. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, greindi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins frá því í dag að hún væri á slíkum lista en hún segir hvorki sig né eiginmann sinn hafa tekið við félaginu sem um ræðir í þeirra tilviki.

Að gefnu tilefni vil ég taka eftirfarandi fram: Fyrir tíu árum keypti ég fyrir tæpar 40 milljónir króna þriðjungshlut...

Posted by Bjarni Benediktsson on Tuesday, March 29, 2016
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert