Von á flóttamönnum í næstu viku

Frá móttöku sýrlenskra flóttamanna á Leifsstöð í janúar.
Frá móttöku sýrlenskra flóttamanna á Leifsstöð í janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

21 sýrlenskur flóttamaður kemur hingað til lands í næstu viku en um er að ræða pláss sem vantaði í hóp þeirra sýr­lensku flótta­manna sem komu hingað í janú­ar.

Hópurinn samanstendur af fimm fjölskyldum og býr fólkið við mismunandi aðstæður í Líbanon. Að sögn Lindu Rósar Alfreðsdóttur, sérfræðings hjá velferðarráðuneytinu er fyrirhugað námskeið fyrir hópinn í þessari viku og svo tekur ferðalagið við en von er á fólkinu 6. apríl eða miðvikudaginn í næstu viku. Fólkið fer ýmist til Hafnarfjarðar eða Kópavogs og að sögn Lindu er undirbúningurinn fyrir komu þeirra samkvæmt áætlun.

Eins og sagt hef­ur verið frá á mbl.is var verið að bíða eft­ir fæðingu barns en í janú­ar var móðir þess kom­in of langt á leið til að mega fljúga. Þá hættu þrjár fjöl­skyld­ur við eft­ir að þeim var boðin hér bú­seta. Hóp­ur­inn sem kem­ur hingað í næstu viku sam­an­stend­ur þá af fjöl­skyldu ný­fædda barns­ins og fjór­um öðrum fjöl­skyld­um.

Að sögn Lindu er nú jafnframt verið að hefja undirbúning á komu næsta hóps sýrlenskra kvótaflóttamanna til Íslands sem verður síðar á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert