Tækifæri til að ræða árangurinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

„Ég er feginn að sjá að þau virðast ætla að manna sig upp í að flytja vantrauststillögu. Þó þau kjósi nú að kalla hana einhverju öðru nafni þá sýnist mér fljótt á litið að þetta sé sama eðlis,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Samþykkt var á fundum þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna í dag að leggja fram tillögu í næstu viku um að þing verði rofið og boðað til nýrra kosninga. Ekki hefur verið ákveðið hvort vantrautstillaga á ríkisstjórnina verður hluti þeirrar tillögu eða komi í kjölfarið.

„Ef þau eru til í að verja tíma þingsins núna til þess að ræða árangur ríkisstjórnarinnar og kannski bera hann saman við þá síðustu þá lýst mér bara ljómandi vel á það. Ég held að þetta sé góður tími til þess. Vonandi hafa þau sig í að koma með slíka tillögu og þá fáum við slíka umræðu.“

Spurður um ályktun þingflokks Framsóknarflokksins í dag um að aflétta leynd sem samþykkt var í tíð síðustu ríkisstjórnar á gögnum verðandi stofnun nýju bankanna, uppgjör slitabúa gömlu bankanna og samskipti við kröfuhafa segir Sigmundur: 

„Það myndi  skjóta verulega skökku við eftir umræðuna að undanförnu ef menn stæðu í vegi fyrir því. Þannig að ég bind verulegar vonir við að það verði hægt að keyra það mál fljótt í gegn og á sama tíma fáum við góða umræðu um það sem þessi ríkisstjórn hefur gert, þann árangur sem hefur náðst og jafnvel þær hindranir sem hún hefur mætt við að ná þeim árangri og hvernig á þeim stóð og þetta geti bara orðið hin gagnlegasta umræða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert