Mikilvægur áfangi fyrir náttúruvernd

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hér eru nokkur mikilvæg tíðindi á ferðinni. Ég vil kannski sérstaklega nefna afar dýrmæt svæði sem lögð eru til í verndarflokk sem eru Héraðsvötnin, Skjálfandafljót og Skaftá. Það er gríðarlega mikilvægur áfangi fyrir náttúruvernd á Íslandi. Síðan leiðir af sjálfu sér að Kjalölduveita er sett í verndarflokk enda er þar ekki um að ræða annað en nýtt nafn á Norðlingaölduveitu.“

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is um drög að lokaskýrslu þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar sem verkefnisstjórn rammaáætlunar kynnti í dag. Með því sé ákveðnum áfanga náð en töluvert ferli sé hins vegar framundan áður en verkefnastjórn leggur fram endanlegar tillögur.

Frétt mbl.is: Sjö virkjanakostir settar í nýtingarflokk

„Þegar kemur að nýtingarflokknum þá er ég mjög hugsi yfir ýmsu sem þar er. Kannski í fyrsta lagi því að að leggja til að setja bæði Holta- og Urriðafoss í nýtingarflokk þar sem öllum spurningum hefur ekki verið svarað. Í fyrsta lagi varðandi fiskinn og ekki síður samfélagsáhrifin. þessar athugasemdir munu væntanlega koma fram í umsagnarferlinu,“ segir Svandís.

Þá nefnir hún Skrokköldu sem sé á miðhálendinu og myndi því væntanlega falla undir miðhálendisþjóðgarð ef af honum verður. Vaxandi fylgi sé við þá hugmynd og því væri ráðlegast að Skrokkölduveita fengi að vera í biðflokki í það minnsta á meðan Alþingi fjallaði um tillögur í þá veru. Verkefnastjórn taki sérstaklega fram að Hágöngur séu settar í biðflokk vegna nálægðar við þjóðgarðinn og því greinilegt að hún horfi til slíkra sjónarmiða í störfum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert