Skyri slett á þinghúsið

Lögreglan hljóp manninn uppi og handtók hann í Austurstræti.
Lögreglan hljóp manninn uppi og handtók hann í Austurstræti. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Skyri hefur verið slett á Alþingishúsið. Það var gert tvívegis í dag með stuttu millibili og hefur lögreglan handtekið mann sem grunaður er um verknaðinn. Í síðara skiptið sletti hann skyrinu beint fyrir framan nefið á lögreglumönnum. Hann flúði svo af vettvangi en var handtekinn í Austurstræti.

Að sögn blaðamanns mbl.is sem er á staðnum er talið að sami maðurinn hafi slett skyri, líklega samtals um átta dósum, á húsið. Arnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að sami maður sé grunaður um að hafa hent eggjum í stjórnarráðið skömmu áður.

Þingverðir hafa fjarlægt skyrdósirnar og verið er að þrífa húsið. Lögregla er einnig á staðnum að hefja undirbúning viðbúnaðar vegna mótmælanna sem boðuð hafa verið kl. 17 á Austurvelli.

Að sögn blaðamanns mbl.is eru ekki margir fyrir utan þinghúsið í augnablikinu en þar fara nú fram  þingflokksfundir. Þingfundur hefst svo kl. 15 og hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson  forsætisráðherra boðað komu sína á þann fund. 

Skyrdós liggur við Alþingishúsið.
Skyrdós liggur við Alþingishúsið. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Þingvörður skolar skyrið af Alþingishúsinu.
Þingvörður skolar skyrið af Alþingishúsinu. mbl.is/Kristján Johannessen
Skyri var skvett á þinghúsið.
Skyri var skvett á þinghúsið. mbl.is/Kristján Johannessen
mbl.is