Staðan „mjög þung fyrir ríkisstjórnina“

Bjarni Benediktsson er staddur erlendis þessa stundina en hefur í …
Bjarni Benediktsson er staddur erlendis þessa stundina en hefur í dag fundað með þingflokki sjálfstæðismanna gegnum fjarskiptabúnað. Hann á von um að funda með forsvarsmönnum Framsóknarflokksins seinna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þingmenn flokksins skynji að þungt hljóð sé í fólki eftir umfjöllun um Panamaskjölin og tengsl íslenskra ráðamanna við skattaskjól. Hann segir þingmenn flokksins vera að leggja mat á stöðuna og mikilvægt sé að málin verði rædd við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn um þá stöðu sem upp er komin. Ætlar hann að ræða við forsvarsmenn Framsóknarflokksins seinna í dag. Þetta segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Staðan er mjög þung fyrir ríkisstjórnina

„Ég ætla ekki að draga fjöður yfir að þessi staða er mjög þung fyrir ríkisstjórnina,“ segir Bjarni aðspurður um áhrif umfjöllunarinnar á ríkisstjórnina. Hann segist þó ekki vilja ræða ætlun stjórnarandstöðunnar um að leggja fram vantrauststillögu í þinginu í dag. „Það er erfitt að tjá sig um tillögu sem er ekki komin fram,“ segir Bjarni. Þessa stundina er hann staddur erlendis eftir frí í Bandaríkjunum, en töf varð á flugi í gær og er Bjarni ekki væntanlegur fyrr en í fyrramálið til landsins.

Bjarni segist ekki vilja tjá sig um hvort hann telji Sigmund Davíð Gunnlaugsson hæfan til að sitja áfram í stól forsætisráðherra eftir umfjöllunina. Segir hann að umræðan um vantraustið muni væntanlega snúast um það. „Ég mun ekki tjá mig um stöðu ríkisstjórnarinnar eða einstaka ráðherra á meðan ég á eftir að ræða við þingflokkinn um þetta,“ segir hann.

Fundar með þingflokknum í gegnum fjarfundabúnað

Bjarni fundaði með þingflokki sjálfstæðismanna gegnum fjarfundabúnað fyrir hádegi í dag og segist munu gera það aftur núna seinnipartinn. „Það dylst engum að það er þungt hljóð í fólki og við munum koma saman aftur í dag, sjálfstæðismenn, til að leggja mat á stöðuna og ræða vikuna framundan,“ segir Bjarni.

Í umfjöllun Kastljóss og Reykjavík Media um Panamaskjölin í gær var sjónum meðal annars beint að félaginu Falson & Co sem Bjarni var skráður einn af eigendum að. Spurður um áhrif umfjöllunarinnar á sig segir hann ekkert varðandi viðskiptin eða aðkomu sína ekki standast skoðun.

„Var ekki í atvinnurekstri eða neins virði“

Bjarni hefur áður greint frá því að hætt hafi verið við viðskiptin seint árið 2008, en í mars árið 2009 tóku gildi nýjar reglur um hagsmunaskráningu þingmanna. Þar kom ekkert fram hjá Bjarna um eignarhald í félaginu. Í umfjöllun Kastljóss segir aftur á móti að félagið hafi verið í rekstri fram í október 2009 og ekki afskráð að fullu fyrr en árið 2012.

Bjarni segir þetta hafa komið sér á óvart. „Ég kann ekki skýringu á því, hef engin gögn séð um að félagið hafi ekki verið endanlega afmáð fyrr en 2012. Það breytir því ekki að félagið hafði þann eina tilgang og viðskiptin sem ég stundaði voru um fasteign sem félagið hélt utan um og þau voru afturkölluð í nóvember 2008. Eftir það hafði það engan tilgang, var frágangsmál,“ segir Bjarni. Bætir hann við að fallist hafi verið á að félagið hætti við viðskiptin en skilyrðið væri að það gæti tekið tíma að skila andvirðinu sem lagt hafði verið inn í þau. Segir hann félagið því hafa fallið utan hagsmunaskráningar eins og hann hafði skilið hana. „Var ekki í atvinnurekstri eða neins virði,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert