„Við mætum vel undirbúin til leiks“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir mætir til sameiginlegs fundar stjórnarandstöðunnar í dag.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir mætir til sameiginlegs fundar stjórnarandstöðunnar í dag. mbl.is/Eggert

Þingmenn stjórnarandstöðunnar funda nú um vantrauststillögu á ríkisstjórnina sem lögð verður fram seinna í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í hádegisfréttum Stöðvar tvö að hann hefði ekki íhugað að segja af sér vegna Panamaskjalanna svokölluðu. 

„Það kemur mér á óvart að hann skuli ekki skynja hvað þetta er alvarleg staða og að hann virðist ætla að halda bara áfram eins og ekkert sé,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is fyrir utan fundarherbergið. Hún segir þingflokk Samfylkingarinnar vel undirbúinn fyrir þingfundinn á Alþingi sem hefst eftir tæpa klukkustund. „Við erum að stilla saman strengi okkar núna og við mætum vel undirbúin til leiks.“

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði það hafa komið sér mikið á óvart að forsætisráðherra ætlaði ekki að segja af sér. „Ég er eiginlega í sjokki yfir að hann sé ekki búinn að því nú þegar. Ég hafði ekki ímyndunarafl í annað,“ sagði hún í samtali við mbl.is.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði það ekki hafa komið sér á óvart sem Sigmundur sagði í hádeginu. „Það er augljóst að hann ætlar ekki að segja af sér og við erum neydd til þess að leggja vantraust á hann,“ sagði Birgitta rétt fyrir fundinn. 

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði það alveg stórmerkilegt að forsætisráðherra hefði ekki sagt af sér. „Samkvæmt þessu viðtali hefur hann ekki einu sinni íhugað það, sem er alveg stórmerkilegt og kemur mér að mörgu leyti á óvart miðað við þá stöðu sem hann er í,“ sagði Óttarr í samtali við mbl.is. 

„En það sem kemur mér líka á óvart og er alveg óviðunandi er að hann skuli enn velja sér fjölmiðla til þess að tala við og neita að tala við ríkisfjölmiðilinn,“ bætti Óttarr við. „Það sýnir alveg stórkostlegan dómgreindarbrest.“

Sameiginlegur fundur stjórnarandstöðunnar hófst kl. 14 í dag.
Sameiginlegur fundur stjórnarandstöðunnar hófst kl. 14 í dag. mbl.is/Eggert
Björt Ólafsdóttir sagðist vera í sjokki að forsætisráðherra hefði ekki …
Björt Ólafsdóttir sagðist vera í sjokki að forsætisráðherra hefði ekki enn sagt af sér. mbl.is/Eggert
Sameiginlegur fundur stjórnarandstöðunnar hófst kl. 14 í dag.
Sameiginlegur fundur stjórnarandstöðunnar hófst kl. 14 í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert