Hugðist „vopnast“ fyrir framhaldið

Ólafur Ragnar Grímsson, ræddi við fjölmiðlamenn á Bessastöðum í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson, ræddi við fjölmiðlamenn á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eggert

Atburðarás dagsins er dramatísk sönnun þess að staða forsetans í stjórnskipun lýðveldisins er með þeim hættu að það getur ráðið úrslitum á örlagastundu hvaða ákvörðun forsetinn tekur.

Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands í samtali við Ísland í dag. Hann sagði að stundum væri talað um forsetann eins og fjölmiðlafulltrúa þjóðarinnar, léttvægt starf, en að atburðir dagsins sýndu og sönnuðu að forsetinn færi með ábyrgð og vald sem skipti miklu máli fyrir lýðræðið, þingræðið og hag þjóðarinnar.

Hann svaraði því ekki beint hvort það kæmi til greina að hann byði sig aftur fram til forseta.

Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð hafa ekki sömu sögu að segja um fund þeirra í morgun en aðspurður sagðist forsetinn ekki ætla í deilur við fráfarandi forsætisráðherra.

Hann benti hins vegar á að Sigmundur Davíð hefði haft með sér ríkisráðsritara og skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins, sem aftur hefðu geymt ríkisráðstöskuna á meðan þeir biðu í eldhúsinu á Bessastöðum. Í töskunni eru geymd skjöl sem eru ætluð forseta til undirritunar.

Ólafur sagði að um væri að ræða fyrsta skiptið í sinni forsetatíð sem ráðherra hafði embættismenn ríkisráðsins með sér á viðræðufund. Þeir hefðu ekkert erindi átt á fundinn ef ætlunin var ekki að fara fram á þingrof. Vera embættismannanna á Bessastöðum væru sönnun þess að hann færi með rétt mál.

Ólafur var spurður að því hvaða ályktun hann hefði dregið af gjörðum forsætisráðherra í dag og sagði þá að hann hefði talið að ráðherrann hefði ætlað sér að „ná sér í þetta vopn“ til að geta beitt því í framhaldsviðræðum við formann Sjálfstæðisflokksins. Sú trú hefði styrkst eftir fund sinn með Bjarna Benediktssyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina