„Nóg“

Þegar fyrstu mótmælendurnir fóru að slá í olíutunnur fyrir utan Alþingishúsið steig hver stjórnarandstöðuþingmaðurinn á fætur orðum í pontu í þingsal og krafðist afsagnar forsætisráðherra. Á meðan sat hann í ráðherrasæti sínu og krotaði á blað. Hann fór svo að svara þingmönnunum úr ræðustóli, reyndi að skýra mál sitt. 

Fyrir utan mögnuðust mótmælin. Þúsundir áttu eftir að koma saman á Austurvelli, líta til þinghússins mikið niðri fyrir og krefjast þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson færi frá völdum.

„Nóg“ stóð m.a. á skiltum mótmælenda sem voru á bilinu 8-22 þúsund, eftir því hvort lögreglan eða skipuleggjendur mótmælanna voru spurðir. Eitt er víst: Þarna var saman kominn fjölmennur hópur fólks sem ætlaði ekki að láta bjóða sér lengur að í stóli forsætisráðherra sæti maður sem ætti í gegnum eiginkonu sína peninga í þekktu skattaskjóli.

Ýmsu var kastað í átt að þinghúsinu, matvælum og pappír. Langflestir létu þó hróp duga til að lýsa skoðun sinni á Sigmundi og ríkisstjórn hans.  Samstaðan var augljós.

Á meðfylgjandi myndskeiði, sem tekið er bæði innan þinghússins og utan í gær, má sjá hvernig dagurinn þróaðist, hvernig fólkið hóf að safnast saman, hvernig það mótmælti og af hverju - og hvað ráðherrann Sigmundur Davíð var að gera inni í þinghúsinu á meðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert