Situr áfram sem þingmaður

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun sitja áfram sem þingmaður samkvæmt tillögu …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun sitja áfram sem þingmaður samkvæmt tillögu sem þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkti. mbl.is/Styrmir Kári

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætlar að sitja áfram sem þingmaður þrátt fyrir að hann stígi til hliðar sem forsætisráðherra samkvæmt tillögu sem framsóknarmenn samþykktu á þingflokksfundi sínum. Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður, segir almennan stuðning við tillöguna innan þingflokksins.

„Tillagan var borin upp af forsætisráðherra. Það var almennur stuðningur innan þingflokksins við hana og hún samþykkt enda að frumkvæði forsætisráðherra. Ég held að hann sé auðvitað bara að bregðast við umræðu sem hefur verið í samfélaginu,“ segir Ásmundur Einar í samtali við mbl.is.

Samkvæmt tillögunni mun Sigmundur Davíð sitja áfram sem þingmaður og sem formaður Framsóknarflokksins. Hann njóti trausts þingflokksins til þess að vera áfram formaður flokksins. Ásmundur Einar vill ekki svara því beint hvort að hann njóti áfram trausts Framsóknarmanna almennt. 

„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er búinn að vera mjög öflugur formaður Framsóknarflokksins. Undir hans forystu höfum við náð góðum árangri í skuldamálum heimilanna, í málefnum kröfuhafa. En þetta mál sem hefur komið upp í tengslum við eignir eiginkonu hans er auðvitað búið að vera þjóðinni þungt. Hann er fyrst og fremst að bregðast við því ákalli sem verið hefur í umræðunni,“ segir Ásmundur Einar.

Ekki sé búið ákveða tímasetningu fundar hans og Sigurðar Inga Jóhannssonar sem á að taka við forsætisráðherraembættinu samkvæmt tillögu framsóknarmanna með forystumönnum Sjálfstæðisflokksins. Hann verði þó í dag.

Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert
mbl.is