Sigurður Ingi næsti forsætisráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson mun taka við embætti forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson mun taka við embætti forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son­, mun gegna embætti forsætisráðherra. Þetta staðfesti Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins í þinghúsinu nú í kvöld.

Stjórnarflokkarnir stefna að því að kynna nýja rík­is­stjórn nú í kvöld, en ekki er ennþá búið að raða í aðra ráðherrastóla. Að sögn Höskuldar, eru þingflokkarnir komnir vel á veg með þá vinnu.  

Þá er Lilja Alfreðsdóttir ráðherraefni Framsóknarflokksins að sögn Höskuldar. Ekki er búið að ganga frá hvaða ráðherraembætti Lilja kann að hljóta, en hún hefur verið efnahagslegur ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fráfarandi forsætisráðherra.  

Þá kom fram í máli Höskuldar að honum fyndist Sigmundur Davíð ekki hafa verið nógu skýr í máli um hvort hann ætlaði að sitja áfram á þingi.

Rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir boðuðu formenn stjórn­ar­and­stöðuflokk­anna á fund í þing­hús­inu klukk­an hálf átta í kvöld, eftir að hafa áður fundað með eigin þingflokkum. Fundir þingflokkanna áttu upphaflega að hefjast klukkan sex, en nokkur seinkunn varð á fundunum sem ekki hófust fyrr en 18.45, en þar áður hafði Sigurður Ingi setið á fundi í stjórnarráðinu með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fráfarandi forsætisráðherra, frá því klukkan þrjú í dag. 

Mik­il eft­ir­vænt­ing ríkti í Alþing­is­hús­inu nú síðdegis og í kvöld, þar sem á fimmta tug fjöl­miðlamanna voru sam­an komn­ir og biðu þess að blaðamanna­fund­ur hefj­ist. 

Mikið var fundað í þinghúsinu og stjórnarráðinu í dag. Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa ítrekað í dag að ekki sé nóg að Sigmundur Davíð segi af sér. Sagði Pírat­inn Helgi Hrafn Gunn­ars­son, m.a. stjórn­mál­in vera rúin trausti og að hugs­an­leg til­laga um að kosn­ing­ar verði haldn­ar í haust sé ein­fald­lega ekki nóg. 

mbl.is

Bloggað um fréttina