„Dómgreind okkar var rétt“

Sven Bergman í þættinum Uppdrag granskning.
Sven Bergman í þættinum Uppdrag granskning. Mynd/Skjáskot

Sænski rannsóknarblaðamaðurinn Sven Bergman sem starfar við þáttinn Uppdrag granskning í sænska ríkissjónvarpinu segist sjaldan nota þá aðferð sem beitt var til að ná viðtalinu við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sem var birt í Kastljósi.

Sigmundur taldi að ræða ætti við sig um efnahagsmál en annað kom á daginn. Bergman spurði hann óvænt út í tengsl hans við aflandsfélag á Tortóla og skömmu síðar tók samstarfsmaður Bergman, Jóhannes Kr. Kristjánsson, við af honum sem spyrill.

„Við teljum að þetta hafi verið rétt ákvörðun, annars hefðum við ekki gert þetta. En þetta er umdeild aðferð og við notum hana mjög sjaldan. Sem blaðamaður verður maður að vera auðmjúkur og mér finnst að það eigi að fara fram siðfræðilegar umræður um svona aðferðir,“ segir Bergman í samtali við mbl.is, en þáttur Uppdrag granskning um aðdragandann að uppljóstrunum úr Panamaskjölunum var sýndur í sænska ríkissjónvarpinu í gær.

Hér er hægt að sjá þáttinn í heild sinni. Hann verður sýndur á Rúv í kvöld.

Frétt mbl.is: Eina leiðin

Hart var sótt að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í þættinum.
Hart var sótt að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í þættinum. Mynd/Skjáskot

Mátti ekki hafa áhrif á sönnunargögnin

„Ég og Jóhannes ræddum hvernig við ættum að fá forsætisráðherrann til að tala um þessi mál fyrir framan myndavél. Við ræddum við sænska sjónvarpið og ICIJ (International Consortium of Investigative Journalists). Niðurstaðan var að við töldum litla möguleika á að herra Gunnlaugsson myndi vilja koma í slíkt viðtal ef hann vissi að við myndum spyrja út í áður ókunn tengsl hans við félag á aflandseyju,“ segir Bergman.

„Þetta var mjög viðkvæmt mál og við skildum að afleiðingarnar bæði fyrir hann og ríkisstjórnina yrðu frekar alvarlegar,“ bætir hann við. „En við vildum ekki útiloka hættuna á því að hann eða einhver í kringum hann myndu reyna að hafa áhrif á sönnunargögnin í málinu. Við ræddum þetta líka áður en þessi ákvörðun var tekin, þannig að þetta voru tvær helstu ástæðurnar.“

Hann heldur áfram: „Við veittum forsætisráðherranum gott tækifæri til að svara spurningunum. Þær voru mjög blátt áfram og það hefði átt að vera einfalt fyrir hann að svara þeim."

Mynd/Skjáskot

Allir sammála um aðferðafræðina

Bergman vill ítreka að ákvörðunin um framkvæmd viðtalsins hafi ekki verið tekin á tíu mínútum eða einum degi. Langar viðræður hafi farið fram á milli hans og Jóhannesar, auk þess sem fundað hafi verið með ritstjóra hans hjá sænska ríkisútvarpinu. Einnig var langur fundur haldinn með stjórn ICIJ en innan samtakanna starfa um 190 blaðamenn í yfir 65 löndum.  

„Þeir hjá ICIJ eru mjög passasamir þegar kemur að svona aðferðum og þeir gera þetta mjög sjaldan. Við gerum þetta líka sjaldan en þeir töldu þetta líka vera rétta ákvörðun,“ greinir Bergman frá. „Ég held að það sem gerðist í framhaldinu sannaði að dómgreind okkar var rétt. Núna sjáum við hversu viðkvæmar staðreyndir þetta voru. Þá er ég ekki að tala um eignir eða skattamál herra Gunnlaugssonar heldur er spurningin miklu stærri en það, því hún snýst um traust og hans feril í stjórnmálum.“

Jóhannes Kr. Kristjánsson í þættinum.
Jóhannes Kr. Kristjánsson í þættinum. Mynd/Skjáskot

Jóhannes frábær blaðamaður

Spurður hvernig það sé að starfa með Jóhannesi  Kr. Kristjánssyni segist Bergman dást að honum. „Mér finnst hann vera frábær blaðamaður, ekki af því að hann er vinur minn, heldur gerir hann engar málamiðlanir hvað fréttirnar varðar. Hann framkvæmir hlutina, jafnvel þótt þeir séu áhættusamir eða slæmir fyrir hann.“

Lengri útgáfa af viðtalinu við Sven Bergman verður birt á mbl.is á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert