Conor McGregor kominn til landsins

Conor McGregor er titilhafi í fjaðurvigt. Hann er nú staddur …
Conor McGregor er titilhafi í fjaðurvigt. Hann er nú staddur á landinu til að æfa með Gunnari Nelson. AFP

Baradagakappinn Conor McGregor er nú staddur á Íslandi og mun næstu vikuna æfa með Gunnari Nelson fyrir bardaga hans í Rotterdam sem verður gegn Albert Tumenov þann 8. maí. Þetta staðfestir Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars og framkvæmdastjóri bardagafélagsins Mjölnis, í samtali við mbl.is. Fyrst var sagt frá komu McGregors á vefsíðu MMAfrétta.

McGregor verður að æfa með Gunnari fram til næsta mánudags, en þá fara þeir saman til Írlands þar sem McGregor æfir alla jafna. Er hann einnig að æfa sig fyrir baradaga gegn bardagamanninum Nate Diaz í júlí.

Haraldur segir að heimsókn McGregor sé hluti af æfingaprógrammi Gunnars og það að fá hann hingað til lands sé á pari við að fá stærstu íþróttastjörnur hverrar íþróttagreinar hingað til lands. Þannig væri þetta svipað og ef íslensk körfuboltalið fengju stærstu NBA stjörnurnar til að æfa með sér eða ef Messi mætti á æfingu með íslensku fótboltaliði.

„Þeir munu hjálpa hvor öðrum,“ segir Haraldur en í tilfelli Gunnars mun McGregor væntanlega vera góð stoð þegar kemur að æfa gegn góðum standandi bardagamanni eins og Tumenov er.

Haraldur segir að félagar í Mjölni muni næstu dagana verða varir við McGregor á æfingum. „Hann er bara að fara að æfa í Mjölni næstu vikuna,“ segir hann glaður í bragði. Allt í allt komu sjö manns með McGregor til landsins, en reglulega koma bardagamenn erlendis frá og æfa með Mjölni að sögn Haralds. Segir hann að ef allt gangi upp muni McGregor koma aftur til landsins í haust.

Gunnar Nelson og Haraldur Dean Nelson. Gunnar mun næst berjast …
Gunnar Nelson og Haraldur Dean Nelson. Gunnar mun næst berjast í Rotterdam 8. maí. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert