Rúmur þriðjungur vill kosningar strax

Ríflega þriðjungur landsmanna, eða 37%, vill að þingkosningar verði haldnar innan tveggja mánaða samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Gallup. 20% vilja að kosningarnar fari fram í sumar eða á tímabilinu frá júní til ágúst.

Fimmtán prósent vilja að kosningarnar fari fram næsta haust eða á tímabilinu frá ágúst til nóvember og 25% vilja að kosið verði vorið 2017. Viðskiptablaðið greinir frá þessu á vef sínum en þar segir að þeir sem séu yngri en fertugir vilji frekar en þeir sem eldri eru að kosningar fari fram strax eða innan tveggja mánaða. Eftir því sem fólk er eldra er líklegra að það vilji að kosningarnar fari fram á hefðbundnum tíma næsta vor.

mbl.is