Ekki gott að nota hræðsluáróður á hjólafólk

Morten Lange (lengst t.h) ásamt öðrum hjólaköppum. Morten segir hjólreiðar …
Morten Lange (lengst t.h) ásamt öðrum hjólaköppum. Morten segir hjólreiðar fýsilegan fararmáta hvort sem menn noti hjálm eða ekki. Kristinn Ingvarsson

Hjálmanotkun getur haft áhrif ef hjólreiðamaður verður fyrir höfuðhöggi, en lögfesting hjálmanotkunar er ekki endilega rétta leiðin. Þetta er álit Morten Lange, fyrrverandi formanns Landsambands hjólreiðamanna og áhugamanns um hjólreiðar og er hún í samræmi við niðurstöður norskra rannsókna.

„Detti maður þá getur hjálmanotkunin haft áhrif, en ef hún er sett í lög þá hefur það þau áhrif að færri hjóla og samsetning hjólreiðahópsins breytist,“ segir Morten og kveður þá sem ragari eru hætta að hjóla við þessar aðstæður og að eftir verði þeir hjólreiðamenn sem taki frekar áhættu.

„Það er ekki gott að leggja of mikla áherslu á að hjólreiðar séu hættulegar til þess eins að sannfæra fólk um að nota hjálma.“ Nokkuð sé um slíkt og þó yfirvöld hafi dregið úr hræðsluáróðrinum þá sé þetta enn oft tónninn í umfjöllun fjölmiðla. Hann nefnir sem dæmi nýlega fyrirsögn um 500% aukningu í hjólreiðaslysum og bendir á að lítið hafi hins vegar farið fyrir því í fréttum að þar til í fyrra hafi enginn látist í hjólreiðaslysi hér á landi frá því 1997, sem séu umtalvert lægri tölur en fyrir önnur umferðaslys.

Óttastefnan gefur ranga mynd

„Það verður nokkur skekkja á umfjölluninni og óttastefnan gefur ranga mynd þegar fókusinn verður á fáa þætti sem þykja líklegir til að hreyfa við fólki og fá það til að nota hjálmana, sem sumir vilja meina að of fáir noti.“ Umferðaráð hafi hins vegar sagt áhættuna við hverja ferð á hjóli vera svipaða og við aðra samgöngumáta.

„Áður en farið er út í áróður fyrir hjálmanotkun þá vildi ég gjarnan að yfirvöld kynntu sér hvernig öðrum ríkjum hefur vegnað.“ Morten bendir á að þegar hjálmanotkun var lögfest í Ástralíu og á Nýja Sjálandi,  þá hafi fyrstu viðbrögð manna verið þau að höfuðmeiðslum hafi fækkað hjá þeim sem voru hjólandi.

„Síðan kom í ljós að samskonar fækkun hafði átt sér stað hjá gangandi vegfarendum og orsökin reynist síðan vera sú að farið var að taka harðar á hraðakstri og akstri undir áhrifum.“ Í ljós hafi einnig komið að það dró úr hjólreiðum samfara hjálmanotkuninni og slíkt sé miður þar sem hjólreiðar séu umhverfisvænn ferðamáti.

Þarf að bæta sambúð akandi og hjólandi

„Samtökin European Cyclist Federation hafa fundið út að hjólreiðamenning styður við 11 af 17 þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem voru sett fram í fyrra haust,“ segir Morten sem sjálfur fer allra sinna ferða á hjóli og hefur tekið þátt í umræðuhópum European Cyclist Federation um hjólaöryggi.

„Að sjálfsögðu þarf þó að bæta sambúð akandi og hjólandi, sem og hjólandi og gangandi hvað varðar tillitsemi, bættan aðbúnað og þá fræðslu sem snýr að því að hjólandi umferð megi vera á götunum.  Hjólreiðar eru fýsilegur ferðamáti og lausn við ýmsum vanda, t.d. er snýr að umferðaröngþveiti og mengun, auk þess að vera hagkvæmar fyrir bæði einstaklinga og samfélagið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert