Dregur framboð sitt til baka

Heimir Örn Hólmarsson.
Heimir Örn Hólmarsson.

Heimir Örn Hólmarsson hefur dregið framboð sitt til embættis forseta Íslands til baka. Í yfirlýsingu frá Heimi kemur fram að sú ákvörðun hafi verið tekin vegna framboðs sitjandi forseta, Ólafs Ragnars Grímssonar. Heimir er þriðji frambjóðandinn til að draga framboð sitt til baka eftir að tilkynnt var um framboð Ólafs. Hinir eru Guðmundur Franklín og Vigfús Bjarni Albertsson. 

„Ég fór í þetta framboð með það að markmiði að taka þátt í að breyta samfélaginu sem við búum í til hins betra. Við búum í dag við að brotið er á mannréttindum fólks, minnihlutahópar eru útskúfaðir og lýðræði ræður ekki ríkjum,“ segir í tilkynningu Heimis.

Segir hann að með framboðinu hafi hann viljað leggja áherslur á grunnstoðir samfélagsins og nefnir hann þar bætt siðferði í íslenskri stjórnsýslu, bættri geðheilbrigðisþjónustu, mannréttindum öryrkja og gefa fólkinu í landinu rödd við lagasetningu í okkar samfélagi,“í því samhengi.

„Ég vænti þess af frambjóðendum að þau berjist áfram fyrir breytingum í samfélaginu, að þau hvetji þjóðina til að taka skrefið fram á við og þau standi vörð um mannréttindi. Það þarf að uppræta fordóma og siðleysi. „Ég mun áfram stuðla að betra samfélagi og láta mig dreyma um að þessi málefni fái framgang í okkar samfélagi í framtíðinni,“ segir í tilkynningunni.

Tilkynningu Heimis í heild sinni má sjá hér að neðan.

Í ljósi framboðs sitjandi forseta hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka.Ég fór í þetta framboð með það að markmiði að taka þátt í að breyta samfélaginu sem við búum í til hins betra. Við búum í dag við að brotið er á mannréttindum fólks, minnihlutahópar eru útskúfaðir og lýðræði ræður ekki ríkjum. 

Með framboði mínu vildi ég leggja áherslur á grunnstoðir samfélags okkar Íslendinga. Má þar nefna bætt siðferði í íslenskri stjórnsýslu, tala fyrir bættri geðheilbrigðisþjónustu, vekja máls á mannréttindum öryrkja og aðgengismálum þeirra og gefa fólkinu í landinu rödd við lagasetningu í okkar samfélagi.

Ég vænti þess af frambjóðendum að þau berjist áfram fyrir breytingum í samfélaginu, að þau hvetji þjóðina til að taka skrefið fram á við og þau standi vörð um mannréttindi. Það þarf að uppræta fordóma og siðleysi.

Ég mun áfram stuðla að betra samfélagi og láta mig dreyma um að þessi málefni fái framgang í okkar samfélagi í framtíðinni.

Ég óska öllum frambjóðendum góðs gengis.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa stutt mig í þessari vegferð. Stuðningurinn sem éhef fundið fyrir er mér ómetanlegur.

Áfram Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert