Drög verkefnisstjórnar harðlega gagnrýnd

Farið er hörðum orðum um drög að lokaskýrslu verkefnisstjórnar þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar í athugasemdum til umhverfiráðuneytisins.

Meðal annars er gagnrýnt harðlega að aðeins séu teknir til umfjöllunar þriðjungur þeirra virkjunarkosta sem lagðir voru fram af Orkustofnun í samræmi við hlutverk hennar að lögum eða 27 af 92 kostum. Þess í stað sé einblínt á virkjanakosti sem grundvallist á lýsingum orkufyrirtækja sem þegar selji raforku í landinu. Það gangi ennfremur gegn markmiðum raforkulaga sem meðal annars sé ætlað að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku.

„Stofnunin lýsir sérstökum áhyggjum vegna þess að ljóst er að í vinnu verkefnisstjórnar hefur algerlega verið horft fram hjá mörgum afar mikilvægum þáttum, svo sem framlagi Íslands til þess að draga úr koltvísýringi í andrúmslofti á heimsvísu með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, nauðsynlegu orkuöryggi á Íslandi, áhrifum á samfélag og efnahag, möguleikum einstakra byggðarlaga til orkuskipta og uppbyggingar, og þannig mætti lengi telja,“ segir ennfremur. 

Verkefnastjórnin ætli að leggja til að friða skuli heil vatnssvæði án þess að samhengi friðunarandlaga sé augljóst. Ekki sé metið hvort einstakir hlutar vatnasvæðanna séu betur eða verr fallnir til verndunar eða nýtingar sem verði að teljast óásættanlegt og andstætt inntaki stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu sem hvíli á herðum verkefnastjórnar. Kostnaðarmat vegna friðunar og nýtingar vanti algerlega í umfjöllun verkefnisstjórnar og áhrif verndunar á samfélag, þjóðarhag orkuöryggismál skorti. Það sé óásættanlegt.

„Það er að mati Orkustofnunar óásættanleg málsmeðferð að horfa fram hjá áhrifum nýtingar og verndar á efnahag og samfélag. Ákvörðun um verndun getur haft afar mikil áhrif, ekki síður en orkunýting. Því er það mat stofnunarinnar að málsmeðferð verkefnisstjórnar sé ófullnægjandi og að flokkunin í skýrsludrögunum sé óásættanleg í ljósi þeirra aðferða, sem beitt er, til þess að komast að niðurstöðu,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert