Icewear semur um eftirlit með starfsemi erlendra birgja

Icewear er með margar verslanir fyrir ferðamenn.
Icewear er með margar verslanir fyrir ferðamenn. mbl.is/Golli

Icewear hefur samið við alþjóðlega eftirlistfyrirtækið SGS um reglubundnar skoðanir og eftirlit með starfsemi þeirra fyrirtækja sem starfa fyrir Icewear erlendis. Um er að ræða 14 fyrirtæki, fataverksmiðjur og saumastofur, bæði í Asíu og Evrópu. Markmið samningsins er að tryggja að fyrirtæki sem starfa fyrir Icewear fari eftir lögum um launagreiðslur, aðbúnað, öryggi og almenna hollustuhætti á vinnustöðunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Stjórnendur Icewear leituðu til SGS eftir að verktaki sem vann fyrir Icewear í Vík í Mýrdal var sakaður um mansal. „Það er vilji Icewear að stöðugt eftirlit SGS með erlendu framleiðslufyrirtækjunum komi í veg fyrir að viðlíka mál komi upp hjá þeim. Erlend fyrirtæki sem Icewear kemur til með að fela verkefni í framtíðinni þurfa að undirgangast skoðun og eftirlit SGS,“ segir í tilkynningu.

Fyrirtækin sem starfa fyrir Icewear geta átt von á starfsmönnum SGS hvenær sem er til að fylgjast með starfseminni í lengri eða skemmri tími. Fyrirtækið fylgist með starfsemi fjölda fyrirtækja út um allan heim og beitir viðurkenndum aðferðum og vottuðum verkferlum við athuganir sínar. Launabókhald fyrirtækjanna er skoðað reglulega og gengið er úr skugga um að starfsfólkið hafi náð lögaldri. Sérstaklega er farið yfir eldvarnir í verksmiðjunum og allur öryggisbúnaður þeirra er skoðaður og yfirfarinn.

Höfuðstöðvar SGS eru í Genf en fyrirtækið er með yfir 1.800 skrifstofur og  rannsóknarstofur út um allan heim. SGS var stofnsett árið 1878 og hjá fyrirtækinu starfa um 85 þúsund manns.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert