Siðareglur Rúv með aðstoð sérfræðinga

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, ræddi nýjan þjónustusamning ríkisins við Ríkisútvarpið á Alþingi í dag.

Í samningnum eru nýjar siðareglur starfsmanna Ríkisútvarpsins sem tóku gildi 22. mars. Að sögn Illuga voru þær unnar að frumkvæði útvarpsstjóra haustið 2014 og var það starfsfólk Rúv sem vann þær sjálft með aðstoð sérfræðinga, m.a. frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. 

„Það er fráleitt að þetta hafi verið gert að sérstakri kröfu minni,“ sagði Illugi.

„Þetta var lagt upp í samræmi við það sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég hef ekki heyrt annað en að það sé sátt um þessar siðareglur. Mér finnst þetta jákvætt framtak Ríkisútvarpsins og stjórn og starfsmenn hafa unnið mjög gott starf.“

Aukið framboð á íslensku gæðaefni

Í samningnum er kveðið á um að stuðlað verði að auknu framboði á íslensku gæðaefni í gegnum Rúv-myndir  og veittar verði að minnsta kosti 200 milljónir króna til kaups og meðframleiðslu á slíku efni.

Aukin áhersla verður lögð á íslenskt efni fyrir börn, auk þess sem forgangsröðun erlends sjónvarpsefnis verður breytt. Minni áhersla verður lögð á engilsaxneskt efni en meiri á efni frá Norðurlöndum.

Einnig kom fram í máli Illuga að gera þurfi áætlun um hvað kostar að færa eldra efni yfir á stafrænt form.

Ríkisútvarpið við Efstaleiti.
Ríkisútvarpið við Efstaleiti. mbl.is/Árni Sæberg

Áframhaldandi fjársvelti

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þjónustusamninginn ekki boða nýja tíma í rekstri Ríkisútvarpsins, heldur boðaði hann áframhaldandi fjársvelti.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók undir orð Ólínu og sagði að um niðurskurðarsamning væri að ræða. „Samningurinn er að sjálfsögðu ekki alslæmur eins og flestir samningar en það breytir því þó ekki að í hann vantar fjármagn og okkur þykir framtíðarmarkmiðin óljós,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert