Skrifað undir Parísarsamkomulagið á föstudaginn

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindarráðherra
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindarráðherra mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra fer til New York í dag til að skrifa undir Parísarsamkomulagið um loftslagsmál fyrir Íslands hönd. Hún mun einnig taka þátt í ráðherrafundi um sjálfbærnimarkmið Sameinu þjóðanna, sem er haldinn samhliða undirskriftarathöfninni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. 

Eins og kunnugt er náðist samkomulag um hertar aðgerðir í loftslagsmálum á 21. aðildarríkjaþingi Loftlagssamnings SÞ í París í desember. Eftir er að ganga formlega frá undirskrift Parísarsamningsins og síðan þurfa ríki að fullgilda hann svo hann gangi í gildi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa fengið tilkynningu um að ráðherrar eða fulltrúar frá um 155 ríkjum hyggist taka þátt í athöfn í New York á föstudaginn þar sem samningurinn verður lagður fram til undirskriftar. Fjölmennasta undirskriftarathöfn til þessa var þegar fulltrúar 119 ríkja rituðu undir Hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna árið 1982. Ráðherrum gefst tækifæri á að vera með ávörp í tengslum við athöfnina.

Unnið að 16 verkefnum í sóknaráætlun

Í tilkynningunni segir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að setja af stað sérstaka sóknaráætlun í fyrra til að sýna vilja í verki við að efla loftslagsstarf í tengslum við Parísarfundinn. Í sóknaráætlun eru 16 verkefni sem bætast við annað starf sem er í gangi í loftslagsmálum. Verkefnin fengu framlag upp á 250 milljónir kr. samtals á fjárlögum fyrir 2016 og eru þau öll komin í gang. Sum verkefnin miða að frekari minnkun losunar og eflingu kolefnisbindingar á Íslandi, en önnur lúta að efldu alþjóðastarfi í loftlagsmálum, eflingu innviða og fræðslu.

Um 67 milljónir króna fara í verkefni sem á að styrkja innviði fyrir rafbíla á Íslandi; unnið hefur verið að útfærslu þess og verða styrkir til þessa auglýstir í sumar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinnur einnig að heildstæðri áætlun um orkuskipti í samgöngum og á fleiri sviðum, sem lögð verður fram á Alþingi. Ritað var undir samning um gerð vegvísis um minni losun frá landbúnaði nú í vikunni, í samvinnu stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands, en unnið er að verkefnum innan sambærilegs vegvísis varðandi sjávarútveg.

Aukið fé verður sett til skógræktar og landgræðslu í nafni loftslagsmála og verkefni um endurheimt votlendis sett á fót, þar sem vonast er til að aðgerðir hefjist nú í sumar. Umhverfisstofnun vinnur að verkefni um minnkun matarsóunar, en minnkun á hvers kyns sóun hefur jákvæð loftslagsáhrif.

Miða að minni losun í þróunarríkjum og víðar

Utanríkisráðuneytið vinnur að verkefnum sem miða að minni losun í þróunarríkjum og víðar og hjálpa við aðlögun að breytingum. Má þar nefna starf undir hatti Alþjóðlega jarðhitabandalagsins (Global Geothermal Alliance), sem sett var á laggirnar í París, og verkefni sem miðar að minni losun sóts á Norðurslóðum.

Unnið er að nýrri vísindaskýrslu um afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi og verkefni um aðlögun að loftslagsbreytingum er komið á fót, hvort tveggja undir leiðsögn Veðurstofu Íslands, en í samvinnu við aðrar stofnanir og fleiri aðila. Veðurstofan kemur einnig að verkefni sem miðar að því að efla fræðslu til ferðamanna og annara um íslenska jökla sem lifandi kennslustofur um loftslagsbreytingar, en Vatnajökulsþjóðgarður og fleiri hafa áhuga á að nýta vöktunargögn til að miðla fræðslu um afkomu jökla í hlýnandi loftslagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert