Gagnrýnir framkvæmdir OR á Sæbraut

Framkvæmdir eru í gangi á Sæbraut um helgina.
Framkvæmdir eru í gangi á Sæbraut um helgina. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hægt hefði verið að komast hjá bæði miklum kostnaði og umferðartruflunum ef framkvæmdir við Sæbraut um helgina hefðu verið boðnar út, að mati jarðvinnufyrirtækis með víðtæka reynslu af samskonar verkefnum.

Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, sér um verkið á Sæbraut nærri gatnamótunum við Skeiðarvog og Kleppsmýrarveg en verið er að leggja þar vatnslögn undir Sæbrautina. Verða akreinar lokaðar til skiptis í dag og á morgun og umferð beint um hjáleiðir.

Jarðvinnufyrirtækið Línuborun bauð 1,2 milljónir í verkið, sem samkvæmt þeirra mati myndi taka um fjórar klukkustundir í borun, auk uppsetningar og frágangs, og ekki krefjast þess að lokað væri fyrir umferð á meðan.

Fyrirtækið hefur sinnt viðlíka verkefnum frá árinu 1999 og boraði síðast undir Sæbrautina fyrir Orkuveituna árið 2011. Erfitt hefur þó reynst að sækja verkefni til Orkuveitunnar að sögn Reinholds Björnssonar, verkstjóra hjá Línuborun. „Það er mjög erfitt að vinna fyrir Orkuveitu Reykjavíkur því þeir vilja stýra verðinu okkar.“ 

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Metið sem svo að útboð væri óþarft

Ekki var ráðist í útboð á verkinu þar sem ekki var talið fýsilegt að bora í gegnum klöpp, sem Veitur töldu liggja grunnt undir götunni, samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni.

„Það var skoðað upphaflega að bora þetta en það var talið að það væri of mikil klöpp þarna til þess að bora. Þess vegna varð sú leið ekki ofan á í þetta skiptið og ákveðið að vinna þetta með eigin mannafla,“ segir Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur.

Leggja þarf lögnina vegna eflingar brunavarna með úðarakerfi í húsunum fyrir neðan götuna en það er Olís sem stendur að þeim framkvæmdum og mun greiða Veitum fyrir lagningu nýju kaldavatnsleiðslunnar. Kostnaðarmat lá ekki fyrir þegar mbl.is ræddi við Eirík í dag.

Furðulegur málatilbúnaður Orkuveitunnar

Þessar skýringar Orkuveitunnar segir Reinhold þó ekki standast skoðun. Bæði segir hann það vel fært að bora fyrir lögninni í gegnum klöpp og þar fyrir utan beri ummerki á staðnum það ekki með sér að þar séu menn að vinna á klöpp.

„Ég er búinn að bora hundruði metra í klöpp og það væri leikur einn að bora þarna í gegn. Maður skilur ekki hvað þeir eru að gera. Þeir eru ekki að segja satt því ég fór og skoðaði þetta í gær. Það er engin klöpp þarna, þetta er bara mold. Það er ein traktorsgrafa með fleyg þarna og hún vinnur ekki á klöpp,“ segir Reinhold.

Þriggja bíla árekstur varð í dag við vinnusvæðið en talsvert …
Þriggja bíla árekstur varð í dag við vinnusvæðið en talsvert rask á umferð fylgir óumflýjanlega lokunum á stofnbrautum. Ljósmynd/Hróar Björnsson

Aldrei fyrir minna en 1,2 milljónir

Aðspurður um hvað Veitum, eða móðurfélaginu Orkuveitunni, gæti gengið til með þessu segir Reinhold það líklegast vera rekjanlegt til þess að ytri aðili fjármagni verkið.

„Ég tel það vera vegna þess að Orkuveitan getur rukkað Olís fyrir þetta verk. Þetta er stórfurðulegt mál með Orkuveituna og mannskapinn hjá þeim, að gera þetta um helgi í næturvinnukaupi með allan þennan mannskap og flota af tækjum.

Ég gæti gert þetta á virkum degi og truflað umferð ekki neitt, því borinn væri á öðru plani. Þeir gætu aldrei tekið þennan veg í sundur fyrir minna en þennan 1.200 þúsund kall, fyrir utan samanlagða kostnaðinn fyrir alla aðra sem þurfa að leggja á sig aukrakrók framhjá lokuninni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina