„Eins konar “mini“-útgáfa af danska konungsveldinu“

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nauðsynlegt er að setja ákveðin tímamörk á setu forseta en einnig þarf að ákveða hvort  embætti forseta lýðveldisins eigi yfirleitt að vera til. Þetta er meðal þess sem kemur fram í pistli Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, í Morgunblaðinu í dag.

Segir Styrmir að breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um forsetaembættið séu enn brýnni en áður í kjölfar þess að forseti Íslands muni sækjast eftir endurkjöri í kosningunum í júní.

„Nú er svo komið að ekki er hægt að draga þær breytingar árum saman heldur verða þær að koma til framkvæmda á næstu misserum,“ skrifar Styrmir og segir breytingarnar snúa að fjórum þáttum. Fyrst hvort að forsetaembættið eigi yfirleitt að vera til og ef svo er að sett verði tímamörk á setu hvers einstaklings. Þá nefnir hann að komið hafi fram réttmætar ábendingar um að forsetakjör fari fram í tveimur umferðum, nái enginn frambjóðandi meirihluta atkvæða í fyrstu umferð. Þá segir hann jafnframt ástæða til þess að afnema alveg synjunarvald forseta vegna laga frá Alþingi en flytja það í þess stað yfir til þjóðarinnar sjálfrar.

Tildur og hégómaskapur þróast í kringum embættið

„Rökin fyrir því að fella þetta embætti niður eru einföld og skýr. Það er eins konar “mini“-útgáfa af danska konungsveldinu,“ skrifar Styrmir. „Forsetanum var ekki ætlað neitt hlutverk sem máli skipti í stjórnskipan lýðveldisins í upphafi en átti að vera eins konar sameiningartákn. Núverandi forseti er sá fyrsti sem ekki sættir sig við það takmarkaða hlutverk og hefur leitazt við að færa út valdsvið forsetans með eigin lögskýringum á óljósum stjórnarskrárákvæðum. Í kringum embættið hefur þróast tildur og hégómaskapur sem ekki á heima í lýðveldi fólks sem byggt hefur afkomu sína á búskap og fiskveiðum.“

Skrifar Styrmir að það hafi ekki verið sett tímamörk við hversu lengi sami einstaklingur getur setið sem forseti hafi ekki verið gert við lýðveldisstofnun, áreiðanlega vegna þess að „gengið hefur verið út frá að forsetar sýndu hófsemi í þeim efnum af sjálfsdáðum. Nú er komið í ljós, að þótt það hafi átt við um þá flesta á það ekki við um þá alla,“ skrifar Styrmir.

Þá segir hann það til marks um skemmtilega breytingu á viðhorfi þjóðarinnar til þessa embættis hve margir bjóða sig nú fram til þess eða hafa haft við orð að gera það.

„En jafnframt þýðir það að hætta getur verið á því að forseti nái við núverandi aðstæður kjöri með svo takmörkuðu atkvæðamagni að vafi getur talist vera á því hvort hann hafi nægilegt umboð frá þjóðinni. Þess vegna eru sterk rök fyrir þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið að undanförnu um fleiri en eina umferð kosninganna, ef sú staða kemur upp.“

Sameinar ekki þjóðina, heldur sundrar

Styrmir er á því að ákvörðun forsetans um að sækjast eftir endurkjöri hafi ekki orðið til að sameina þjóðina heldur hefur hún orðið til að auka enn á þá sundrungu sem fyrir er.

„Hún vinnur því gegn yfirlýstu markmiði forsetans. En hún kann þó að skila eftirsóknarverðum árangri. Hún kann að leiða til samstöðu allra flokka um að koma fram nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá, m.a. varðandi forsetaembættið. Það hefur hamlað ítrekuðum tilraunum til að ná fram breytingum á stjórnarskrá að stjórnmálaflokkarnir hafa haft mismunandi skoðanir á þeim.

 Mistök fyrri ríkisstjórnar eiga hér einnig hlut að máli. Kosning stjórnlagaráðs var dæmd ógild í Hæstarétti. Þess vegna átti auðvitað að endurtaka þá kosningu. Það var ekki gert heldur þeir skipaðir sem náð höfðu kjöri í hinni ógiltu kosningu. Þeir hafa síðan talað á þann veg að þeir haft sótt umboð sitt til þjóðarinnar. Það gerðu þeir ekki og þess vegna er ítrekaður málflutningur þeirra á misskilningi byggður. Þeir voru enn ein stjórnskipuð nefnd. Forseti Íslands hefur vafalaust byggt ákvörðun sína á að bjóða sig fram til endurkjörs á þeirri forsendu sem hann hefur gefið upp að hann yrði að fórna eigin frelsi fyrir skyldur gagnvart þjóðinni. En viðbrögðin við þeirri ákvörðun sýna að dómgreindin hefur brugðizt honum. Úr því sem komið er fer bezt á því að allir þættir þessa máls verði ræddir fyrir opnum tjöldum í kosningabaráttunni. Frambjóðendur eru svo margir að búast má við líflegum umræðum. Að því loknu tekur þjóðin sína ákvörðun.“

Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson mbl.is/Ragnar Axelsson
mbl.is