Afgreiðslutíminn styttur um 75%

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, á fundi þar sem niðurstaða vinnu …
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, á fundi þar sem niðurstaða vinnu síðustu tveggja ára um breytingu á vinnufyrirkomulagi í málefnum hælisleitenda var kynnt. mbl.is/Golli

Meðalmálsmeðferðartími Útlendingarstofnunar í málum hælisleitanda fór á tveimur árum úr því að vera 317 dagar niður í 87 daga. Það er rétt rúmlega fjórðungur þess sem áður var. Þetta er árangur sem stofnunin náði eftir að hafa fengið sérfræðiráðgjöf frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) um skipulag og tekið allt ferli sitt í gegn í þessum málaflokki. Niðurstaða vinnunnar var kynnt á fundi í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag.

Má ekki gera það sama hér?

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingarstofnunar, segir í samtali við mbl.is að upphaf málsins megi rekja til fundar sem hún sat með fulltrúum Flóttamálastofnunarinnar og annarra forráðamanna stofnana á borð við Útlendingastofnun. Á miðjum fundi hafi henni verið sagt frá breytingum sem hefðu verið innleiddar eða væru í vinnslu hjá Lettlandi og Svíþjóð í samvinnu við Flóttamálastofnun. Spurði hún hvort að það væri ekki með sama hætti hægt að skoða málefnin hér á landi.

Þurftu að fara í sjálfskoðun

Flóttamálastofnun vann alla ráðgjafavinnuna að sögn Kristínar og svo var verkferlum bætt í samræmi við þær hugmyndir eða komið á ef ekki voru fyrir verkferlar. Sum málefni lágu ljós fyrir í upphafi að hennar sögn, en þar á meðal hafi verið að afgreiðslutími umsókna. Önnur atriði komu stofnuninni aftur á móti á óvart og hjálpuðu til við að fara í sjálfskoðun.

Nefnir Kristín sem dæmi að í skýrslunni sem kynnt var í dag komi fram að sumar ákvarðanir sem stofnun tók hafi verið misjafnar milli eins mála. „Þær áttu að vera eins en svo var ekki,“ segir Kristín. Þá voru niðurstöður sem afhendar voru hælisleitendum í mörgum tilfellum mjög ítarlegar og í löngu máli. Nefndi Flóttamannastofnun að dæmi væru um að umsækjendur hefðu fengið niðurstöðu á 40 blaðsíðum. Oft á tíðum ætti fólk erfitt með að skilja þær upplýsingar vegna tungumálaörðugleika og því væri ekki skilningur fyrir niðurstöðunni.

Þá segir Kristín að bent hafi verið á vankanta með túlkaþjónustu. „Við keyptum slíka þjónustu og þeir áttu að kunna sitt fag,“ segir hún en bætir við að þegar þjálfun og sérhæfingu skorti í þessum málaflokki hjá túlkum geti niðurstaðan verið mismunandi. Þá segir hún líka að með meiri þjálfun verði viðtölin skilvirkari.

Fengu ráðgjöfina frítt

Kristín segir greiningarvinnu Flóttamannastofnunar á málefnum Útlendingastofnunar hér á landi hafa verið hvalreka. „Þau vinna alla þessu vinnu fyrir okkur. Þetta er eins og að kaupa sérfræðinga til að vinna rannsókn á innviðum fyrirtækis og hvað megi bæta, en við borguðum ekki fyrir þetta. Ómetanleg vinna,“ segir Kristín.

Stofnunin náði á síðustu tveimur árum að vinna niður öll þau mál sem höfðu setið eftir í kerfinu, en þau voru 70 talsins í ágúst 2014. Í nóvember í fyrra var staflinn búinn og aðeins eftir mál sem voru innan 90 daga viðmiðunar um afgreiðslutíma.

„Þarf að straumlínulaga allan ferilinn“

Aðspurð hvort þetta sé endastöð eða hvort bæta megi ferli í kringum málefni hælisleitenda betra segir Kristín að Útlendingastofnun sé bara einn hluti af heildarmyndinni. „Allt sem kynnt var í dag snýr að Útlendingastofnun, en ferlið stoppar ekki hjá okkur.“ Þannig bendir hún á að ef niðurstaða stofnunarinnar sé neikvæð sé hægt að kæra niðurstöðuna. „Það þarf að straumlínulaga allan ferilinn og við erum ekki komin þangað,“ segir Kristín.

Í fyrra sóttu 354 einstaklingar um hæli hér á landi. Kristín segir að áætlun stofnunarinnar í ár geri ráð fyrir að 600 manns sæki um hæli og að það séu neðri mörk áætlunarinnar. Miðar fjármagn sem innanríkisráðuneytið samþykkt til málaflokksins þeirri tölu. Í gær höfðu 170 manns sótt um hæli og segir hún að miðað við það séu umsóknir á pari miðað við áætlun, en almennt eru fleiri umsóknir þegar líða tekur á árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert