Fangelsisdómar í Milestone-málinu

Karl Wernersson.
Karl Wernersson. mbl.is/Styrmir Kári

Hæstiréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmdi ákærðu í Milestone-málinu til fengelsisvistar. Héraðsdómur hafði áður sýknað alla ákærðu. Einn sýknudómur var staðfestur yfir þriðja endurskoðandanum sem ákærður var í málinu.

Karl Wernersson var dæmdur í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði, Steingrímur Wernersson í tveggja ára fangelsi og Guðmundur Ólason í þriggja ára fangelsi. Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson voru dæmd í níu mánaða fangelsi en fullnustu refsinganna fellur niður haldi þau skilorð í tvö ár. Þá voru þau Margrét og Sigurþór svipt löggildingu til endurskoðunarstarfa í sex mánuði.

Bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir voru í málinu ákærðir ásamt Guðmundi Ólasyni fyrir að hafa látið Milest­one fjár­magna kaup bræðranna á hluta­fé syst­ur þeirra, Ing­unn­ar, í fé­lag­inu. Hafi verið með öllu óvíst frá hverjum, hvenær eða með hvaða hætti Milestone fengi fjármunina til baka.

Þá voru endurskoðendurnir Margrét og Sigurþór ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur við endurskoðun sína á ársreikningum Milestone og samstæðureikninga samstæðunnar fyrir árin 2006 og 2007.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að umræddir fjármögnunarsamningar hefðu engar skuldbindingar lagt á Milestone heldur eingöngu Karl og Steingrím en þrátt fyrir það hafi félagið verið látið efna samningana við Ingunni upp á tæplega 5,1 milljarð króna. þannig hefðu þeir misnotað aðstöðu sína hjá Milestone.

Þeir voru einnig sakfelldir fyrir umboðssvik í tengslum við þetta og fyrir meiriháttar brot gegn lögum um bókhald með því að hafa í ákveðnum tilvikum ekki hagað bókhaldi með nægjanlega skýrum, öruggum og aðgengilegan hátt á grundvelli áreiðanlegra og fullnægjandi gagna. Þá voru þeir sakfelldir fyrir meiriháttar brot gegn lögum um ársreikninga með því að hafa rangfært efnahagsreikninga vegna Milestone fyrir árin 2006 og 2007.

mbl.is