Bæði embættin vanhæf

Innanríkisráðherra mun þurfa að skipa löghæfan mann til verksins.
Innanríkisráðherra mun þurfa að skipa löghæfan mann til verksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Embætti héraðssaksóknara og ríkissaksóknara hafa lýst sig vanhæf til meðferðar kærumála tveggja manna sem voru sakborningar í LÖKE-málinu, gegn Öldu Hrönn Jóhannesdóttur, yfirlögfræðings á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Frá þessu greinir á vef Ríkisútvarpsins og kemur þar fram að því verði það í höndum innanríkisráðuneytisins að finna löghæfan mann til að rannsaka kærurnar.

Garðar St. Ólafsson, lögmaður mannanna segir þessa stöðu ekki hafa komið upp áður en að væntanlega þurfi að skipa sérstakan héraðssaksóknara og svo, eftir atvikum, sérstakan ríkissaksóknara.

„Þetta ýtir kannski undir það að þörf sé á sjálfstæðri eftirlitsstöfnun með störfum lögreglu og ákæruvaldinu,“ segir Garðar. „Ég vona að þetta valdi ekki mikilli töf og að innanríkisráðherra bregðist fljótt við.“

Ann­ar kærenda er Gunn­ar Scheving Thor­steins­son lög­reglumaður og hinn er fyrr­ver­andi starfsmaður fjar­skipta­fyr­ir­tæk­is­ins Nova.

Mennirnir kærðu Öldu fyrr í mánuðinum fyrir rangar sakargiftir og brot í starfi, og krefjast þeir þess að hún verði svipt embætti og lögmannsréttindum.

Gunnar var sak­felld­ur í Hæsta­rétti Íslands fyr­ir að hafa greint vini sín­um frá því á Face­book að hann hafi verið skallaður af ung­um dreng við skyldu­störf. Gunn­ari var ekki gerð refs­ing í mál­inu en hann var upphaflega grunaður um að hafa flett upp kon­um í LÖKE og deilt upp­lýs­ing­um um þær á lokuðum Face­book-hóp með fyrrnefndum starfsmanni Nova og lög­manni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert