„86.000 radda kór hefur tjáð sig“

Sigurður Ingi Jóhannson, forsætisráðherra, tekur við undirskriftalistunum af Kára Stefánssyni, …
Sigurður Ingi Jóhannson, forsætisráðherra, tekur við undirskriftalistunum af Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Árni Sæberg

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra, veglegan bunka með 86.729 undirskriftum við lokahátíð und­ir­skrifta­söfn­un­ar­inn­ar „End­ur­reis­um heil­brigðis­kerfið“ sem fram fór í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í dag. 

Fulltrúar allra stjórnmálaflokka tóku til máls, auk þess sem Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, var viðstaddur lokahátíðina. 

„Það er alveg ljóst að á því sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna hafa sagt að við erum öll í sama liði. Við erum hér öll til að berjast fyrir betra heilbrigðiskerfi og halda upp á þá staðreynd að 86.000 radda kór hefur tjáð sig fyrir hönd samfélagsins og krafist þess að miklu meira af féi ríkisins verði lagt til heilbrigðismála og mér heyrist að þessi þróttmikla rödd hafi náð til þeirra sem taka ákvarðanir í þessu samfélagi og því ber að fagna,“ sagði Kári, rétt áður en hann afhenti undirskriftirnar.  

Kári sagði jafnframt að undirskriftarsöfnunin hefði sýnt að stjórnmálamenn séu viljugir að hlusta á vilja fólksins í landinu. „Því ber að fagna.“ Kári sagði jafnframt að söfnunin hefði verið tilraun í beinu lýðræði.

Aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið mun auka traust til stjórnmálanna

Kári minntist auk þess á að þegar upphaf undirskriftarsöfnunarinnar hófst um miðjan janúar hafi sumir innan ríkisstjórnarinnar litið á hana sem ógn við sig.

„Sumir í ríkisstjórninni sögðu að um lýðskrum væri að ræða. Þeir vissu ekki betur og þeim er fyrirgefið,“ sagði Kári, og líkti svo viðhorfi þeirra til undirskriftarsöfnunarinnar viðhorfi sínu til lýsis á yngri árum. „Vont á bragðið en gott fyrir heilsuna til langframa.“

„Þess vegna er ég viss um að ef núverandi ríkisstjórn er til þess gæf að auka fjárveitinga til heilbrigðismála í ár mun það auka traust á stjórnmálunum öllum, ekki bara ríkisstjórnarflokkunum,“ sagði Kári.  

Kostnaðarþátttaka almennings minnki

Kári lauk máli sínu á að leggja fram tillögu til núverandi ríkisstjórnar. „Kostnaðarþátttaka fólksins er 18% af heildarkostnaði, sem er líklega 140-150 milljarðar. Fólkið í landinu greiðir því 30 milljarða og mín tillaga er að þið, stjórnmálamenn, takið saman höndum og byrjið að skera niður greiðsluþátttöku úr 18% í 9% á þessu ári.“

Kári fagnaði að lokum þeirri samstöðu sem hann sagðist finna fyrir í salnum. „Það sem gleður mig er að allt sem ég hef sagt er þess eðlis að ég er nokkurn veginn viss um að allir stjórnmálamenn sem hér hafa tekið til máls geta tekið undir. Það sem við þurfum að gera er að sjá til þess að heilbrigðismálin verði aðal kosningamálið í haust. Við verðum að sjá til þess að þessir stjónmálamenn láti ekki aðra hagsmuni ýta við sér. Þeir eru undir stöðugum þrýstingi og okkar hlutverk er að horfa yfir öxlina á þeim.“

Bjarni Bendiktsson, Kristján Þór Júlíusson og Sigurður Ingi Jóhannsson, voru …
Bjarni Bendiktsson, Kristján Þór Júlíusson og Sigurður Ingi Jóhannsson, voru viðstaddir er Kári Stefánsson afhenti forsætisráðherra undirskriftirnar í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert