Notuðu piparúða á ungmenni

Íbúar Neskaupstaðar telja margir hverjir að ungmennin hafi verið beitt …
Íbúar Neskaupstaðar telja margir hverjir að ungmennin hafi verið beitt óþarfa hörku. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögreglan í Neskaupstað notaði piparúða á ungmenni í bænum aðfararnótt laugardags í aðgerð sem ætlað var að leysa upp gleðskap þar sem unglingar undir aldri neyttu áfengis.

Unga fólkið hafði tekið Blúskjallarann í Neskaupstað til leigu fyrir samkvæmi í kjölfar árshátíðarsamkomu Verkmenntaskóla Austurlands sem lauk klukkan eitt um nóttina.

Margar sögur fara af því nákvæmlega hvað það var sem olli því að lögregla taldi nauðsynlegt að nota úðan á ungmennin.

Lögreglan á Austurlandi vildi ekki tjá sig um málið við mbl.is en á vef RÚV er haft eftir Óskari Þór Guðmundssyni, einum þriggja lögreglumanna sem komu að aðgerðinni, að lögregla hafi reynt að rýma svæðið í um 15 mínútur. Viðstaddir hafi ekki brugðist við hótunum um sektir við óhlýðni og lögregla hafi handtekið mann sem vildi hvorki hlýða né segja til nafns né hlýða. Ungmennin hafi þá gert aðsúg að lögreglu og því hafi ekkert annað verið í stöðunni en að beita piparúðanum.

Úðað án aðvörunar

Anton Bragi Jónsson, nemandi í Verkmenntaskóla Austurlands, varð vitni að því þegar lögreglan kom á staðinn.

„Þeir spyrja hver leigði salinn og sá var akkúrat ekki á staðnum heldur rétt ókominn. Þá segja þeir fljótlega að partýið sé búið. Þá er einn sem stillir á lagið „Fuck the Police“, og skiljanlega fór það ekki vel í þá.“

Anton brá sér út fyrir fljótlega eftir að lögreglan kom og sá ekki þegar gripið var til piparúðans. Viðmælandi RÚV, Elís Ármannsson sem einnig er nemi í VMA, segir ungan mann hafa hótað einum lögreglumannanna kæru eftir að sá síðastnefndi ýtti í hann. Þá hafi lögreglumaðurinn grýtt unga manninum utan í vegg og þegar vinir drengsins mótmæltu aðförunum hafi lögreglumaðurinn dregið upp úðan og sprautað yfir viðstadda án aðvörunar.

Anton segir fjóra til fimm drengi og eina stúlku hafa fengið úðan í augun, stúlkan þegar hún reyndi að stíga á milli lögreglu og piltanna. „Ég þekki þessa stráka sem voru þarna, þeir voru kannski í glasi og ósáttir við að vera reknir út en það þarf enginn að segja mér að það hafi þurft að vaða beint í brúsann.“

Sjálfur segist hann hafa eytt bróðurparti því sem eftir lifði nætur í að hjálpa vini sínum við að skola úr augunum.

Samkvæmt heimildum mbl.is er mikil reiði í bæjarfélaginu vegna hörku lögreglunnar og Anton segir skólafélögum sínum mörgum mjög brugðið. Samkvæmt frétt RÚV verður farið yfir upptökur úr myndavélum sem lögreglumennirnir báru og stendur til að kæra allt að 15 manns fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka