Safna til styrktar Seibel-fjölskyldunni

Fjölskyldan fyrir utan gistiheimili í útjaðri Parísar í síðustu viku.
Fjölskyldan fyrir utan gistiheimili í útjaðri Parísar í síðustu viku. Ljósmynd/Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson

900.000 krónur hafa safnast til styrktar Seibel-fjölskyldunni sem var vísað héðan úr landi í síðustu viku eftir að hafa búið hér í átta mánuði. Það voru starfsmenn Akursskóla í Innri-Njarðvík sem tóku sig saman og hófu söfnun og undirskriftarlista til styrktar fjölskyldunni. Langtímamarkmiðið er að koma fjölskyldunni aftur til Íslands.

Mbl.is og Sunnudagsblað Morgunblaðsins hafa fjallað ítarlega um mál fjölskyldunnar en hún kemur frá Úsbekistan og samanstendur af Ir­inu og Vla­dimir Sei­bel og börnum þeirra, Mil­inu sem er níu ára og tví­bur­ana Sam­ir og Kemal sem eru sex ára. Fjöl­skyld­an hrakt­ist frá heimalandinu vegna trú­arof­sókna en var vísað úr landi hér þar sem umsókn þeirra um hæli var ekki tekin til meðferðar. 

Fyrri frétt mbl.is: „Það er engin framtíð“

Eva Björg Sigurðardóttir heldur utan um söfnunina og segir hún hana ganga mjög vel. Er peningurinn notaður til þess að aðstoða fjölskylduna sem er nú stödd í Frakklandi og reynir að sækja þar um hæli. Þau vilja samt ekkert heitar en að komast aftur til Íslands. Nú þegar er búið að afhenda fjölskyldunni 150.000 krónur og var styrkurinn mjög vel þeginn að sögn Evu. „Núna erum við að vinna í því að koma þeim í einhverja íbúð svo þau þurfi ekki að vera stöðugt á hótelum.“

Eva segir það hafa verið leiðinlegt fyrir Akurskóla að missa Seibel fjölskylduna en öll börnin voru nemendur þar. Hún segir sérstaklega erfitt að útskýra fyrir börnunum hvar vinir þeirra eru niðurkomnir.

„Með undirskriftarlistanum vildum við sýna samstöðu og sýna fram á að það er hópur fólks sem vill að þau fái að vera á Íslandi. Við ætlum að senda Útlendingastofnun fljótlega bréf en viljum hafa eitthvað á bakvið okkur og þá kemur undirskriftarlistinn sterkur inn,“ segir Eva en markmiðið er að ná að minnsta kosti 1500 undirskriftum en þær eru nú 1129 talsins. „Draumurinn er að þau komist aftur til Íslands,“ segir Eva.  

Fyrri frétt mbl.is: „Við elskum að vera hérna“

Þeir sem vilja styrkja fjölskylduna geta lagt inn á eftirfarandi reikning:

159-05-60366
Kt. 191085-3619

Þá er hægt að skrifa undir undirskriftarlistann hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert