Töldu að dagar þeirra væru taldir

C-117 herflugvélin á Sólheimasandi áður en öll verðmæti úr henni …
C-117 herflugvélin á Sólheimasandi áður en öll verðmæti úr henni voru fjarlægð. Ljósmynd/Þórir Níels Kjartansson

Þann 21. nóvember 1973 var bandarísk herflugvél af gerðinni Douglas C-117 á leiðinni frá Höfn í Hornafirði til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli þegar veður fór skyndilega versnandi. Flugvélin hafði verið að flytja varning til ratsjárstöðvarinnar við Stokksnes. Hitinn féll niður í 10 gráðu frost, öflugar vindhviður skullu á flugvélinni og ís fór að safnast fyrir í vél hennar.

Eftir að áhöfn flugvélarinnar, undir forystu flugstjórans James Wicke, hafði tekist á við mikla ókyrrð í lofti um tíma drapst á báðum hreyflum hennar vegna ísingar. Þokan sem umlukti flugvélina var svo þykk að áhafnarmeðlimirnir fimm sáu ekki endana á vængjum hennar. Flugvélin tók að hrapa og stefndi beint á fjallshlíð þegar Wicke sendi út neyðarkall á meðan hann reyndi í örvæntingu sinni að koma hreyflum vélarinnar aftur í gang.

Voru staddir yfir einhverju sem líktist tunglinu

Mennirnir um borð voru sannfærðir um að dagar þeirra væru taldir. Aðstoðarflugstjórinn, Gregory Fletcher, sem hafði aðeins 21 flugtíma að baki í C-117 flugvél og var enn í þjálfun, tók yfir stjórn vélarinnar og tók þá ákvörðun að stefna suður á bóginn og lenda vélinni í hafinu fyrir sunnan landið. Hann vissi að 15 sekúndur í Norður-Atlantshafinu þýddi ofkælingu en einnig að áhöfnin myndi samstundis láta lífið ef flugvélin brotlenti í ísilagðri fjallshlíð.

Þegar flugvélin kom niður fyrir skýin í 2.500 feta hæð sá Fletcher að þeir væru staddir yfir einhverjum sem „liti út eins og tunglið.“ Þar var um að ræða Sólheimasand. Hann ákvað að gera tilraun til þess að lenda í frosinni sandfjörunni. Það tókst og stöðvaðist vélin að lokum um sex metra frá sjónum. Flugvélin var illa farin eftir lendinguna en allir voru á lífi. „Þægilegasta lending sem ég hef tekið þátt í,“ sagði Howard Rowley síðar en hann var í áhöfninni.

Flakið af C-117 flugvélinni á Sólheimasandi.
Flakið af C-117 flugvélinni á Sólheimasandi. mbl.is/Jónas Erlendsson

Þegar flugvélin hafði stöðvast drifu áhafnarmeðlimirnir sig út úr henni enda höfðu komið göt á eldsneytistanka hennar við lendinguna. Áður gripu þeir sjúkrakassa vélarinnar og handfrjálsa fjarskiptastöð frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Fletcher hóf strax að reyna að ná sambandi við herstöðina í Keflavík. Um klukkustund síðar kom björgunarþyrla frá varnarliðinu á staðinn og flutti þá til Keflavíkur undir læknishendur. Í ljós kom að ekkert amaði að þeim.

Bandaríski sjóherinn veitti Fletcher heiðursmerki fyrir framgöngu hans. Hann starfar í dag sem lögfræðingur í Memphis í Bandaríkjunum. „Ég reyndi bara að gera það besta úr hörmulegum aðstæðum. Ég gerði mitt besta,“ er haft eftir honum í umfjöllun Eliots Stein á vefsíðunni Vice.com. Bandaríkjamenn hirtu allt sem hægt var að hirða úr flugvélaflakinu og skildu síðan það sem eftir stóð eftir á Sólheimasandi þar sem það hefur verið síðan.

Fjölmargar bandarískar flugvélar farist á Íslandi

Grein Steins er byggð á rannsókn hans á sögu C-117 flugvélarinnar. Hann sökkti sér niður í gögn frá bandaríska hernum og hafði uppi á Rowley og Fletcher. Hann ræddi einnig við þau Einar Þorsteinsson og Eyrúnu Sæmundsdóttur sem bjuggu á jörðinni þar sem flugvélin lenti þegar það gerðist. Þau sáu vélina lenda og fóru á staðinn á dráttarvél. En hún var hægfara og þegar þau komu á staðinn var þegar búið að bjarga áhöfninni og byrjað að rífa flakið.

Þau Einar og Eyrún gerðu ráð fyrir því að Bandaríkjamennirnir myndu fjarlægja flak flugvélarinnar að fullu en það gerðu þeir ekki sem fyrr segir. Flakið, sem oft hefur ranglega verið sagt af Douglas DC-3 flugvél, var framan af nýtt af Einari sem skýli fyrir rekavið og síðar leyfði hann kunningjum sínum að skjóta á það úr byssum. Í seinni tíð hefur það hins vegar orðið að vinsælum ferðamannastað sem vakið hefur athygli víða um heiminn.

Úr tónlistarmyndbandi söngvarans Justins Bieber.
Úr tónlistarmyndbandi söngvarans Justins Bieber. Skjáskot

Haft er eftir Friðþóri Eydal, sem lengi var fjölmiðlafulltrúi varnarliðsins, að samkomulag hafi verið á milli Bandaríkjamanna og íslenskra stjórnvalda um að þeir fyrrnefndu greiddu 85% af kostnaðinum vegna björgunar ef bandarísk flugvél hrapaði á Íslandi. Íslensk stjórnvöld þyrftu hins vegar að sjá um að fjarlægja flökin. Forsenda þess hafi hins vegar verið sú að landeigendur færu fram á að flökin væru fjarlægð en það hafi þeir hins vegar nær aldrei gert.

Stein segir að samkvæmt gögnum Bandaríkjahers hafi fjölmargar bandarískar flugvélar farist hér við land. Raunar segir hann að á fáum stöðum í heiminum hafi fleiri bandarískar flugvélar hlotið slík örlög. Ástæðan hafi oftar en ekki verið íslenska veðrið. Þannig hafi 385 slys átt sér stað frá 1941, þegar Bandaríkjaher kom fyrst til Íslands, til 1973, þegar C-117 flugvélin nauðlenti á Sólheimasandi, þar sem bandarískar herflugvélar hafi komið við sögu.

„Með það í huga að við höfum aldrei háð stríð við Íslendinga, að ekkert ríki hefur ráðist á Ísland í 70 ár og að þessi eyþjóð hefur ekki einu sinni her, þá er þetta bilun,“ ritar Stein og vísar síðan í Fletcher: „Þú verður að hafa í huga að veðrið á Íslandi er mjög kraftmikið. Það breytist líklega oftar en nokkurs staðar í heiminum fyrir utan heimskautasvæðin sem er ástæða þess að við fljúgum vanalega ekki yfir þau.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert