Kalla eftir endurskoðun lögræðislaga

mbl.is/Styrmir Kári

Geðhjálp hefur skorað á stjórnvöld að hefja vinnu við allsherjarendurskoðun lögræðislaga til að tryggja að lögin standist ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. „Lögin ganga ekki aðeins í berhögg við samninginn heldur lágmarkskröfur Mannréttindasáttamála Evrópu um nauðsynlega réttarvernd viðkomandi einstalinga,“ segir í tilkynningu frá Geðhjálp.

Samtökin gagnrýna m.a. að gildandi lög skuli heimila nauðungarvistun á spítala og lögræðissviptingu á grundvelli geðsjúkdóms. Þá gagnrýna þau einnig að heilbrigðisstarfsfólk skuli hafa heimild til að beita nauðungarvistaða þvingun í meðferð.

Tilkynning Geðhjálpar í heild:

Geðhjálp skorar á stjórnvöld að hefja vinnu við allsherjar endurskoðun gildandi lögræðislaga til að tryggja að lögin standist ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Lögin ganga ekki aðeins í berhögg við samninginn heldur lágmarkskröfur Mannréttindasáttmála Evrópu um nauðsynlega réttarvernd viðkomandi einstaklinga að því er fram kemur í úttekt Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, mannréttindalögfræðings, fyrir Geðhjálp. 

Eitt af meginmarkmiðum nýafstaðinnar endurskoðunar lögræðislaga var að tryggja að lögin stæðust ákvæði SRFF. Lögin standast þó ekki veigamikil ákvæði samningsins um bann við mismunun, þvingaða meðferð og staðgengilsákvarðanatöku. Gildandi lögræðislög öðluðust gildi í kjölfar vinnu innanríkisráðuneytisins þann 16. desember 2015. Ekki var tekið mið af ábendingum Geðhjálpar og fleiri hagsmunasamtaka varðandi ofangreind atriði.

Gildandi lögræðislög leyfa m.a. nauðungarvistun á spítala og lögræðissviptingar á grundvelli geðsjúkdóms. Lögin leyfa nauðungarvistun manneskju á spítala í allt að 72 klukkustundir með samþykki læknis og í 21 dag með samþykki sýslumanns. Ljóst er að ákvæðið brýtur í bága við 14. gr. SRFF um að tryggt sé að fatlaða fólk (b) sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða að geðþótta og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu og raunar fleiri greinar samningsins. 

Með sama hætti veita gildandi lögræðislög leyfi til að lögræðissvipta manneskju tímabundið á grundvelli geðsjúkdóms eða  annars konar alvarlegs heilsubrests. Með því er brotið í bága við 12. gr. SFRR um að fatlaðir skuli njóta lögformlegs hæfis (lögræðis) til jafns við aðra. Fyrirvari laganna um að önnur og vægari úrræði hafi verið reynd áður en gripið er til lögræðissviptingar gengur ekki nógu langt í að koma í veg fyrir mismunun gagnvart fötluð fólki samkvæmt áðurnefndri grein.

Þegar manneskja er svipt sjálfræði tekur við svokölluð „staðgengilsákvarðanataka“, þ.e. skipaður lögráðamaður tekur allar meiriháttar ákvarðanir í lífi ólögráða einstaklings samkvæmt lögræðislögum. Með því er brotið í bága við 12. gr. SFRR um sjálfstæðan ákvarðanrétt fatlaðs fólks. Íslensk stjórnvöld telja sig hafa mætt þessu ákvæði með svokölluðu talsmannakerfi. Sú er ekki raunin því talsmenn eru launalausir og því er ekki hægt að ganga út frá jöfnu aðgengi. Því til viðbótar hafa Sameinuðu þjóðirnar kveðið skýrt á um að ekki sé gert ráð fyrir innleiðingu stuðnings við ákvarðanatöku samhliða staðgengilsákvarðanatöku. Með öðrum orðum gerir SRFF kröfu um að „staðgengilsákvarðanataka“ lögráðamanna verði lögð niður.

Ólíkt öðrum sjúklingahópum veita lögin heilbrigðisstarfsfólki heimild til að beita nauðungarvistaða þvingun í meðferð. Með því er brotið í bága við minnst sex greinar SRFF, m.a. d-lið 25. greinar um að starfsfólki beri að annast fatlað fólk á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um samninginn hefur bent á að hægt sé að beita mun mannúðlegri aðferðum í neyðartilvikum, t.a.m. með framtíðaráætlunum (e. advanced planning) og ýmis konar samtalsmeðferðum. Evrópunefnd gegn pyndingum (CPT-nefndin) hefur án árangurs beint því til stjórnvalda að afmarka betur heimild lækna um að beita þvingaðri meðferð.

Með tilvísun til þess að íslensk stjórnvöld hafa með undirskrift sinni skuldbundið sig til að ganga ekki í berhögg við samninginn við lagasetningu eru þau hvött til að hefja vinnu við allsherjar endurskoðun gildandi lögræðislaga hið fyrsta. Jafnframt skorað á þau að fullgilda SFRR á yfirstandandi þingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert