Mývatnsmál litið alvarlegum augum

Mikil umræða hefur verið uppi um verndun lífríkisins á Mývatni.
Mikil umræða hefur verið uppi um verndun lífríkisins á Mývatni.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að ráðuneytið muni gera allt sem í valdi þess stendur til að vernda lífríkið á Mývatni.

„Við hjá umhverfisráðuneytinu höfum verið hlynnt því að það verði reynt að gera þetta sem allra best úr garði. Við höfum stutt það að reynt verði að finna leiðir til að fjármagna þetta verkefni,“ segir  Sigrún.

Skorað hefur verið á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða til að vernda lífríki Mývatns og Laxár sem sé í bráðri hættu vegna næringarefnaauðgunar. Veiðifélög á svæðinu hafa kallað eftir rannsókn á ástandinu. Því hefur verið velt upp að fjölgun ferðamanna á svæðinu með tilheyrandi skólpnotkun valdi því að vatnið er gruggugra en góðu hófu gegnir.

Frétt mbl.is: Bregðist við eins og náttúruhamförum

„Það er sjálfsagt að þegar lífríkið er svona viðkvæmt að það verði gert allt sem í mannlegu valdi stendur til sporna gegn því að það skaðist,“ bætir Sigrún við.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ekki af manna völdum 

Að sögn Sigrúnar var aukaskýrslugerð sett í gang í fyrra til að skoða fráveitumálin á Mývatni til að kanna hvort mikið álag væri á vatninu vegna aukinnar ferðamennsku. Niðurstöður skýrslunnar gáfu til kynna að breytingin á vatninu hefði ekki verið af manna völdum. Þrátt fyrir það segir hún mikilvægt að unnið verði áfram í fráveitumálunum á svæðinu, til að vera „á öruggu hliðinni“.

„Við höfum verið að skoða þetta frá öllum hliðum og við munum kalla alla að borðinu í næstu viku, bæði heimafólk og vísindamenn, til að fara yfir þetta mál.

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/Rax

Hefði viljað komugjald

Sveitarstjórn Skútustaðarhrepps fundaði með fjárlaganefnd Alþingis síðastliðið haust og óskaði eftir aðstoð við byggingu skólphreinsistöðvar í Reykjahlíðarþorpi í Mývatnssveit sem myndi minnka álag á Mývatni.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að komugjald á Mývatni, rétt eins og við aðrar náttúruperlur á Íslandi, hefði  getað leyst hluta af vandanum sem um ræðir. „Ég er undrandi á því að komugjaldið hafi ekki verið tekið upp. Þetta svæði myndi einmitt falla undir slíkt,“ segir hún.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður umhverfisnefndar Alþingis.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður umhverfisnefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vill stofna samráðshóp

Umhverfisnefnd Alþingis fundaði um ástand mála á Mývatni á miðvikudaginn en engin ákvörðun hefur verið tekin um framhaldið.

„Við lítum málið mjög alvarlegum augum. Ég tel að það eigi að stofna samráðshóp sem myndi fara vel yfir þetta,“ segir Höskuldur Þórhallsson, formaður nefndarinnar.

„Það eru vísbendingar um að vatninu sé hætta búin af auknum ágangi ferðamanna og öðrum þáttum en um leið vita menn að vatnið er dínamískt og getur tekið hröðum breytingum,“ segir Höskuldur.

„Fráveitumál eru á forræði einstakra sveitarfélaga en hins vegar hefur Skútustaðarhreppur litlar tekjur af þessum gríðarlega ferðamannastraumi sem þar er. Í ljósi þess hversu viðkvæmt svæði þetta er þyrfti að skoða það alvarlega hvort ríkið og kannski líka ferðaþjónustuaðilar þurfi að koma þarna til aðstoðar.“

Frá Mývatni.
Frá Mývatni. Ljósmynd/Birkir Fanndal Haraldsson.

350 milljóna verkefni 

Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri Skútustaðarhrepps, segir sveitarstjórnina hafa fengið jákvæðar viðtökur hjá fjárlaganefnd síðasta haust en engin niðurstaða hafi enn komið úr því. Hann segir að heildarupphæðin varðandi byggingu skólphreinsistöðvar gæti numið um 350 milljónum króna.

Hann vill taka það fram að ekki er verið að veita skólpi út í Mývatn. „Það er rotþróarkerfi alls staðar og engin fráveita af skólpi úti í vatni. Það þarf bara að gera betur en hefðbundnar rotþrær ráða við,“ greinir Jón Óskar frá. „Það mætti skila það af umræðunni að það sé markvisst verið að veita skólpi út í vatnið eins og gert er í bæjum sem standa við sjó en það er ekkert þannig.“

Verndarlög og Ramsar-samningur

Sérstök verndarlög gilda um Mývatn og Laxá, sem Alþingi setti fram á áttunda áratugnum, auk þess sem vatnið er hluti af Ramsar-samningnum sem er alþjóðlegur samningur um votlendi. Markmiðið með honum er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, sérstaklega sem lífsvæði fyrir votlendisfugla.

„Við teljum full rök fyrir því að ríkið styðji okkur í þessu máli varðandi fráveituna. Á sama tíma þarf að stórauka fjármagn í rannsóknir til að reyna að leiða það í ljós hvað er að eiga sér stað,“ segir Jón Óskar en tekur fram að vöktun hafi verið í gangi um langa hríð á vegum rannsóknarmiðstöðvarinnar við Mývatn, Ramý. Svæðið hafi því verið rannsakað töluvert.

Ljósmynd/Birkir Fanndal Haraldsson

Vildi sameiningu 

Sigrún Magnúsdóttir tekur fram að hún hafi á síðasta ári lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem hún lagði til að Ramý og Náttúrfræðistofnun Íslands yrðu sameinuð. Forstöðumenn beggja stofnana hafi viljað það til að geta eflt rannsóknir sínar en það hafi staðið í umhverfisnefnd Alþingis.

mbl.is