Pavel gefur alltaf gullin sín

Pavel Ermolinskij með Stefáni Rafni, sem er með verðlaunapeninginn, og ...
Pavel Ermolinskij með Stefáni Rafni, sem er með verðlaunapeninginn, og Árna Degi. Ljósmynd/Berglind Stefánsdóttir

Pavel Ermolinskij, landsliðsmaður í körfubolta og margfaldur meistari með KR, hefur það fyrir venju að gefa börnum verðlaunagripi, sem hann hlýtur að launum fyrir afrek sín. Þannig fengu bræðurnir Árni Dagur og Stefán Rafn Sigurgeirssynir gullpening Pavels sem hann var sæmdur þegar KR varð Íslandsmeistari í liðinni viku.

Bræðurnir búa með foreldrum sínum í Vesturbænum og á liðnu hausti byrjaði Stefán, sem er sjö ára, að æfa körfubolta hjá KR. Æfingarnar voru á undan æfingum meistaraflokks og því sá Stefán Pavel reglulega á æfingum í vetur, en var feiminn og þorði ekki að gefa sig á tal við átrúnaðargoðið. „Ég spilaði körfubolta með Tindastóli sem unglingur á Sauðárkróki og áhugi minn hefur smitast yfir í synina,“ segir Berglind Stefánsdóttir, móðir drengjanna. Hún segir að Pálmar Ragnarsson, þjálfari yngri flokka KR, sé ekki aðeins mjög góður þjálfari heldur hafi hann hrifið börnin og forráðamenn þeirra með sér og meðal annars hvatt krakkana til þess að mæta á leiki. „Með honum óx áhugi Stefáns á körfunni, Árni Dagur, sem er fimm ára, smitaðist og þeim finnst mjög gaman að fara á leiki,“ segir Berglind. „Þeir eru öllum stundum að skjóta á körfu á bílskúrsveggnum hérna heima og stefna að því að verða jafngóðir og Pavel.“

Frábær fyrirmynd

Strákarnir hafa ekki alltaf verið duglegir að borða fisk, en þar varð heldur betur breyting á þegar þeir vissu að fiskurinn væri keyptur hjá Pavel í sælkerabúðinni Kjöti & fiski á Bergstaðastræti. „Það er nóg að segja að fiskurinn sé keyptur hjá Pavel þá er hann borðaður þegjandi og hljóðalaust. Þetta er líka frábær búð með besta fiskinn og kjötið sem hægt er að fá í bænum,“ segir Berglind.

Daginn eftir annan leikinn í úrslitakeppninni fór fjölskyldan sem oftar í búðina til Pavels. Berglind segist þá hafa sagt honum að það væri honum að þakka að drengirnir væru orðnir duglegir að borða fisk. „Ég bætti við að þeir væru auðvitað grjótharðir KR-ingar og mættu vel á leiki, meðal annars í Haukahúsið kvöldið áður. Honum þótti þetta greinilega merkilegt og sagði við þá að ef KR landaði titlinum á heimavelli næsta mánudag skyldu þeir koma til sín og hann myndi gefa þeim medalíuna sína. Þeir sáu ekkert nema stjörnur og töluðu ekki um annað. Leikurinn tapaðist en á leiðinni í fjórða leikinn sögðu þeir að kannski fengju þeir medalíuna hans Pavels eftir leik. Ég sagði þeim að Pavel hefði bara talað um heimaleikinn, en þeir fóru samt til hans eftir sigurinn. „Hæ, við erum strákarnir úr fiskbúðinni. Manstu eftir okkur?“ sögðu þeir við hann. Hann mundi strax eftir þeim, tók af sér medalíuna og gaf þeim.“ Berglind á ekki til orð yfir hugulsemi Pavels. „Hann er frábær fyrirmynd í íslenskum körfubolta,“ segir hún.

„Það var ánægjulegt að heyra að bræðurnir hafa tekið upp þann góða sið að borða fisk eins og ég og það er mikill sigur fyrir mig að vera fyrirmynd ungra og efnilegra körfuboltamanna,“ segir Pavel. „Ég hef alltaf gefið mínar medalíur og það hefur oft verið þannig að fyrsti krakkinn sem hefur beðið um verðlaunin hefur fengið þau,“ heldur hann áfram. Hann segist ekki hafa verið mjög vongóður um að hitta bræðurna í hamaganginum eftir síðasta leik, en hann hafi beðið rólegur eftir því að sjá þá. „Margir krakkar báðu mig um medalíuna en ég sagði þeim sem var að það væri búið að panta hana. Svo komu strákarnir feimnir upp fyrir haus, minntu mig á loforðið og ég gaf þeim medalíuna.“

Pavel segir að hann þurfi ekki að eiga stóran bikaraskáp. „Ég þarf ekki medalíur til að minna mig á minningarnar og sigrana,“ segir hann. „Medalían er stórmál fyrir krakkana og þegar ég var á þeirra aldri leit ég upp til íþróttamanna og þótti vænt um athygli frá þeim. Ef sigurlaunin gleðja krakkana gleður það mig meira en medalían sjálf.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »