Umræðan á villigötum

Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur.
Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur, sem hefur umsjón með rannsókninni á Landssímareitnum, segir umræðuna um uppgröftinn á villigötum.

„Fólk hefur komið inn í þessa umræðu á röngum forsendum, að okkar viti. Þeir sem byrjuðu að skrifa um málið hefðu gjarnan mátt koma til okkar fyrst og afla sér upplýsinga. Þannig hefði mátt eyða misskilningi sem erfitt getur verið að vinda ofan af,“ segir hún

Stærsti misskilningurinn, að sögn Völu, er sá að verið sé að grafa í Fógetagarðinum. „Það er ekki rétt. Rannsóknin tekur alfarið til svokallaðs Landssímareits sem er í eigu Lindarvatns ehf., sem kostar þessa rannsókn. Það er líka rangt að það vanti öll minningarmörk í Fógetagarðinn, þau eru fjögur þar í miðjum garðinum, en eitt veglegasta minningarmerki um þá sem í garðinum hvíla var tekið niður og fjarlægt árið 1967 þegar viðbygging Landssímahússins var gerð. En sú framkvæmd hafði í för með sér að yngsti hluti kirkjugarðsins var fjarlægður, þar sem jarðvegsskipti voru höfð niður á fast.

Það er mikilvægt að halda því til haga að við beitum að sjálfsögðu vísindalegum aðferðum til hins ýtrasta, enda rannsóknaruppgröftur þó svo að í kjölfarið verði hér byggt. Ég fer með rannsóknarleyfið við þennan uppgröft og vinn samkvæmt gefnu leyfi Minjastofnunar og í góðri samvinnu við hana. Hefði verið ástæða til að grípa inn í þennan uppgröft væri Minjastofnun búin að gera það. Vil ég því ítreka að hér er því miður búið að raska allverulega þeim sem hér hvíldu með fyrri framkvæmdum, menn verða að horfast í augu við þá staðreynd og beita þá kröftum sínum og tíma í að t.d. endurgera þann minningarvegg er stóð í Fógetagarðinum í 35 ár áður en hann var rifinn niður 1967 og sýna þá í verki þann hug sem fylgir máli að virða minningu þeirra er voru jarðsettir í Víkurgarði,“ segir Vala.

Það er mikilvægt, að hennar dómi, að menn kynni sér hlutina svo ekki sé farið með rangfærslur í greinaskrifum. Vísindaleg nálgun, aðferðafræði og rannsóknarspurningar liggi til grundvallar uppgreftrinum. „Þó að um framkvæmdarannsókn sé að ræða er enginn munur á þeim kröfum sem gerðar eru til hennar og rannsóknaruppgraftrar að því leytinu til, nema síður sé.“

Henni þykir gagnrýnin einkennast af því að þeir sem sett hafi hana fram vilji ekki að hótel rísi á Landssímareitnum, svo sem til stendur. Það sé á hinn bóginn allt annað mál sem komi fornleifarannsókninni ekki á neinn hátt við. „Þegar Reykjavíkurborg skipuleggur úthlutun lóðar hefst ákveðið ferli. Í því felst meðal annars að Minjastofnun setur kvaðir til handa lóðarhafa, svo sem að reiturinn sé rannsakaður með tilliti til fornminja eins og við erum að gera hér. Þetta vita menn sem lengi hafa lifað og hrærst í borgarkerfinu, enda hluti af skipulagsferlinu sjálfu.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Ármann Guðmundsson fornleifafræðingur við störf á Landssímareitnum.
Ármann Guðmundsson fornleifafræðingur við störf á Landssímareitnum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert